Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 139
ANDVARI
ÚR POKAHORNI POES
137
á fimmta áratugnum en birti þýðinguna aldrei sjálfur. Hún var prentuð að
honum látnum í Ritinu. Tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Islands árið
2011. Aðrir sem birt hafa þýðingar á „Hrafninum“ eru Sigurjón Friðjónsson
árið 1934, Jochum Eggertsson, sem kallaði sig Skugga, árið 1940, Þorsteinn
frá Hamri 1985 og Gunnar Gunnlaugsson 1986. Þorsteinn breytti þýðingu
sinni nokkuð er hann birti hana að nýju í Ritsafni sínu 1998 og endurskoð-
aði hana enn áður en hún birtist þriðja sinni í annarri útgáfu Ritsafnsins árið
2004. „Hrafninn“ lætur menn ekki í friði frekar en krummi sá er í ljóðinu
sjálfu herjar á hinn einmana grúskara sem segir af reynslu sinni og líðan nótt
eina angursama um miðjan vetur, er hann blaðar í gömlum skræðum, þreytt-
ur og syfjaður. Dottandi heyrist honum þá sem knúið sé dyra. Ljóðmælanda
virðist nokkuð brugðið, því að hann leitar strax hugarhægðar í þeim þanka að
hér sé „einungis“ á ferð „einhver gestur".9
Once upon a midnight dreary, while I pondered, weak and weary
Over many a quaint and curious volume of forgotten lore -
While I nodded, nearly napping, suddenly there came a tapping,
As of some one gently rapping, rapping at my chamber door.
„’T is some visitor," I muttered, „tapping at my chamber door -
Only this and nothing more.“
Þótt Poe hafi lagt mikið í formræna smíð þessa ljóðs, er það einnig haganlega
byggt að öðru leyti, til dæmis hvað tímavíddir varðar. Upphafsorðin „Once
upon a [...]“ virðast enduróma upphafsstef og fortíðarsvið margra ævintýra,
en í stað orðsins „time“ kemur annað ævintýraorð: „midnight“. Og á þess-
ari miðnæturstund má segja að kvæðið leiði okkur í fjórar áttir: í fyrsta lagi
til fortíðar, sem býr ekki aðeins í fornum fræðum heldur í sambandi ljóð-
mælandans við Leónóru, konu sem ætla verður að sé ekki lengur í tölu lif-
enda. Sumum hefur ekki þótt einleikið hversu upptekinn Poe er af dánum
konum og hafa m.a. femínískir fræðimenn haft sitthvað við það að athuga.10 í
öðru lagi markast nútíð ljóðsins af gestinum undarlega, hrafni sem kemur sér
fyrir í herbergi mælandans. Þá glittir í framtíð, sem ljóðmælandi hugsar til
(„Eagerly I wished the rnorrow" segir í öðru erindi), en þessa hugsun fram á
við virðist gesturinn þvertaka fyrir með því eina orði sem frá honum kemur:
„Nevermore“. Síðustu ellefu erindum ljóðsins lýkur með þessu fræga stefi eða
krunks ígildi. Loks mótar einnig fyrir dularvídd sem ekki lýtur röklegum
skilningi, dulmagni sem fyllir ljóðmælanda í senn ógn og þó von um að hann
verði fær um að yfirstíga tímans hömlur og finna Leónóru á ný.
„Hrafninn“ birtist árið 1845 og sú rökkurógn og uggur sem einkenna
kvæðið eru sem slík ekki einstök í skáldverkum frá fyrri hluta nítjándu aldar.
Hér er byggt á vissum þáttum í skáldskap og hugmyndaheimi rómantísku
stefnunnar, m.a. þeim streng sem kallaður hefur verið „gotneskur“ (,,Gothic“).