Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 186
184
HEIMIR PÁLSSON
ANDVARI
ritsins hafa hugsað sér nytsemi þess að halda til haga þeim fáum blöðum sem
ritgerðin kynni að hafa varðveist á, en þar eð texti hennar er ekki eins og í
Wormsbók er eins sennilegt að hún hafi geymst sér á parti og ekki verið hluti
af stærra safni.
Vísnaskráin
Málfræðiritgerðinni lýkur á vinstri síðu í opnu og á síðunni á móti (48r) verð-
ur enn fyrir sérstætt efni. An fyrirsagnar er skrifuð þar skrá yfir upphafs-
línur, oftast eina, stöku sinnum tvær, 36 fyrstu erindanna í Háttatali, kvæði
Snorra Sturlusonar um Hákon konung Hákonarson og Skúla jarl Bárðarson,
sem lýkur Eddu.
Þessi vísnaskrá hefur greinilega ekki átt að vera lengri, því síðan er ekki
alveg full og sami skrifari hefur botnað textann með leyniskrift þar sem lesið
verður: „Hér er ritaður halfr fiorðitugr hatta.“ Það er reyndar laukrétt, því
fallið hefur niður upphaf 35. vísu en í staðinn er skrifað upphaf 36. vísu.
Oftast fylgir með vísuorðinu (eða orðunum) heiti bragarháttarins, og er þar
meiri fróðleik að hafa en í handriti kvæðisins sjálfs, því ekki hafa allir hættir
eða háttabrigði fengið heiti þar.34
I formála sínum 1931 gerði Finnur Jónsson því skóna að skrifari handritsins
hefði einungis ætlað að búa til lista af þessu tagi yfir erindi Háttatals en síðan
hefði honum snúist hugur og ákveðið að skrifa kvæðið allt. En eftir 56 erindi
hefði hann hins vegar hætt (honum hefði verið öllum lokið!). Þegar sýnt hefur
verið að Finni skjátlaðist um handritið (hann taldi vísnaskrána skrifaða eftir
sama forriti og Háttatal),35 sem og að finna má fullgilda skýringu á því að
ekki voru skrifuð fleiri erindi kvæðisins er full ástæða til að líta á fleiri kosti.
Þekktar hliðstæður við Vísnaskrána eru fáar, en samt nógar til að skýra
fyrirbærið sem minnislista, aide memoire, eins og það er kallað á lærdóms-
máli.36 Þegar horft er á handritið eins og hér hefur verið gert er augljóst að
tveir gátu haft veruleg not af skránni: kennari og nemandi. Skráin hefur verið
fjarska gagnleg fyrir kennara, heyrara, sem þurfti að hlýða nemanda yfir
Háttatal, og eins hefur hún verið afar þægileg til að minna nemandann á,
meðan hann var að læra kvæðið. Þess er á hinn bóginn engin von að fundin
verði skýring á því hvers vegna skráin varð ekki lengri, þar verðum við að
una við upplýsingabrest.