Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 159
ANDVARI
ÚR POKAHORNI POES
157
Þessir textar eru til vitnis um að Poe hefur haft verulega viðkomu í íslensku
bókmenntalífi. Hér er margt órannsakað, ekki síst hvað varðar þessi verk sem
þýðingar, en einnig þarf að huga nánar að stöðu þeirra í íslenskri bókmennta-
sögu. Inn í hana hafa þau iðulega komið án þess að ljóst sé hverjir önnuð-
ust flutninginn, en aðrir þýðendur eru nafngreindir og það vekur athygli að
Málfríður Einarsdóttir er einn af þýðendum Poes í kringum 1960. Þá hafði
hún enn ekki öðlast mikla viðurkenningu í íslensku bókmenntalífi; hana upp-
skar hún ekki fyrr en með bók sinni Samastaður í tilverunni árið 1977. Með
sögunni „Þögn“ eykur hún nýrri vídd í mynd Poes sem sagnaskálds á íslensku
(ásamt Hrafni Tulinius sem áður hafði þýtt systursöguna ,,Skugga“), en athygl-
isvert er að hún birti einnig þriðju íslensku þýðinguna á hinni mögnuðu sögu
„A Descent into the Maelström", sem hún nefnir „I röstinni“ - þar sem sögu-
maður telur sér snöggan bana búinn, en kemst að raun um að tími gefst til að
eignast þarna svolítinn stað í tilverunni, skyggnast um í hringiðunni og fylgjast
með öllu því lífsins braki sem er þar á fleygiferð en samt á hægri niðurleið.
Málfríður skrifaði einnig allítarlega grein um Poe, þar sem hún fjallar um
ævi hans og örlög, og lítur á hann sem utangarðshöfund sem kom færandi
hendi og átti enn margt ógert, „af hagleik, sem enginn á annar slíkan“, enda
höfði hvert kvæði hans „til nokkurs sem þér er týnt annars, og þú hefðir
með engu móti viljað sjá af, því það er hin eina réttlæting þeirrar deyfðar og
drunga sem er hlutskipti okkar, jafnt í rigningu og skammdegi sem á sólskins-
dögum, umhverfing hins óbærilega oks tímans, hversdagsleikans og hrell-
ingarinnar í dulvitaðan hversdagsleik og dulvitaða hrellingu með annarlegum
bjarma yfir, víkkun vitundarsviðsins yfir að þröskuldi hins óumræðilega,“54
Skáldið ísak Harðarson tekur með sínum hætti upp þennan þráð í ljóða-
bókinni Slý sem skrifuð er undir höfundarnafninu ísak Maðkland og birtist
1985, sama ár og ljóðskáld af annarri kynslóð, Þorsteinn frá Hamri, birti þær
þýðingar sínar á ljóðum Poes sem ræddar eru hér framar. Slý, sem er jafn-
framt myndverk eftir Vigni Oyoyo [Jónsson], ber undirtitilinn Náttbók fyrir
draumfærslur og er „til Edgars“ - fer vart milli mála hvaða Edgar það er.
Við erum stödd í demónskri myrkraveröld. I áður tilvitnuðu ljóði Magnúsar
Gíslasonar um Poe segir að skáldið megni að senda ljós í myrkrið, en hér segir
að myrkrið birtist þegar kveikt er á kerti, og „logi þessa kertis / er kóleru-
svartur / myrkrið sem af honum stafar /nægir heilum kirkjugarði“.55
Edgar Allan Poe er skáld skugganna, sem verða til við samleik birtu og
myrkurs. Sýn hans er ekki einhlít, fremur en margt annað skuggaspil. En
hann hefur átt drjúgt erindi við íslenskt bókmenntalíf og margir hafa efnt til
samræðu við hann.