Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 154
152
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
hans við nýrómantík og symbólisma á fyrstu áratugum aldarinnar, en Poe átti
sinn þátt í þeim hræringum í íslenskum bókmenntum. Sagan „Eleonore“, sem
er einskonar söguafbrigði, með framhaldi, af ljóðinu „Annabel Lee“, hafði til
dæmis birst á íslensku árið 1906, í blaðinu Val á ísafirði; þýðandi er ónafn-
greindur eins og svo oft var á þessum tíma.41 A öðrum áratug aldarinnar sækir
Poe síðan til Islands eftir ýmsum leiðum, ekki aðeins á vegum þýðinga, eins
og í Poe-kveri Þórbergs árið 1915. Árið eftir flytur blaðið Oðinn tíðindi af því
að Einar Jónsson myndhöggvari hafi gert uppkast að minnismerki um skáldið
Edgar Poe og fylgir mynd af frumgerðinni, þar sem við blasa hrafn, auk karl-
manns og konu - þetta eru væntanlega persónurnar úr ljóðinu „Hrafninn“.42
Einar Jónsson, líkt og nafni hans Benediktsson, hefur líklega fundið hjá Poe
symbólismastreng sem hann tengdi sig við. Ári síðar birtist í Óðni langt ljóð
eftir Magnús Gíslason undir heitinu „Edgar Allan Poe“. Þar er sem skáldið
eigi í allsherjarsamræðum við ólgu nútímans og gott ef ekki heimsástandið -
á þessum tíma geisar heimsstyrjöld. Hér eru nokkrar línur úr ljóðinu:43
Skáld, er þekti veikan vilja,
voðann sá og afdrif skildi
aðra því hann vara vildi
gömmum við, er grímur hylja,
í dulmálsóðum, dæmisögum
drotnar vald, er gerðir metur;
undan Skuldar skjóma og lögum
skálkur ekki flúið getur.
Hér birtist Poe í hetjuljóma; hann er „aðalsandi“ er getur gefið „göfgar vonir
særðu hjarta“ og „sent í myrkur ljósið bjarta.“ Sé þetta fullbjört mynd af
skáldjöfrinum, þá má einnig finna dæmi um að til hans hafi verið vísað sem
afleitrar fyrirmyndar og ekki skirrst við að gera hann að skúrki, eins og þegar
blaðið Templar segir að „langmesta skáld Ameríkumanna“ hafi verið „ein-
hver mesti drykkjumaður sem um er getið. [...] Gat kona hans ekki þolað þá
örbirgð og það andstreymi, sem ofdrykkja eiginmanns hennar bakaði henni.
Misti hún þá heilsuna, og dó í hinum mesta vesaldómi rúml. tvítug að aldri.‘44
Árið 1918 er Poe einnig mættur á hvíta tjaldið í Reykjavík, enda hefur bíó-
menning nú haldið innreið sína. Gamla bíó auglýsir sjónleikinn Þú skalt ekki
mann deyða! „Framúrskarandi efnisgóður og vel leikinn sjónleikur í 6 þátt-
um eftir hinni ágætu skáldsögu „Et Hjertes Banken“ eftir Edgar Allan Poe,
sem er frægur um allan heim fyrir sinn ágæta skáldskap. [...] Alt efni mynd-
arinnar er svo átakanlegt, að það hlýtur að hrífa hvern mann, og sjálfs sín
vegna ætti enginn að láta hjá líða að sjá þessa lærdómsríku mynd. [...] Börn
fá ekki aðgang.145 Hér er greinilega um að ræða kvikmyndina The Avenging
Conscience: or “Thou Shalt Not Kill" frá 1914, þetta er ein af hinum þöglu