Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 141
andvari
ÚR POKAHORNI POES
139
Hrafninn gerist þaulsætinn í húsakynnum hins einmana ljóðmælanda, sem
spyr gestinn um eitt og annað en fær ávallt sama svarið: „Nevermore.“ Þetta
orð - í senn tregafullt og ógnandi - ómar eða drynur í gegnum kvæðið og
situr eftir í huga lesanda eða hlustanda. Einar Benediktsson þýðir „never-
more“ með „aldrei meir“ og verður líklega ekki betur gert, enda hefur þetta
tilsvar fundið sér tryggan stað í íslenskum orðabúskap. En ore-hljóðið í „ne-
vermore" er jafnframt stofninn í leiðarrími um öll erindi kvæðisins hjá Poe:
„more“, „door“, „Lenore“ osfrv. Til að fylgja þessu eftir bregður Einar þrá-
faldlega á það ráð að ríma „heyr“ á móti „meir“ og fer ekki alltaf vel. Sú lausn
Matthíasar Jochumssonar að setja orðið eða krunkið „kró“ í stað „meir“ er
þó enn skýrara dæmi um vandann sem við er að etja. „Nevermore“ verður
„Aldrei - kró“.13 Annars vegar segir krummi „aldrei“ á mannamáli og bætir
svo við krunki; hann er að segja má tvítyngdur.
Allir þýðendurnir sjö leysa prýðisvel ýmsan vanda sem það veldur að koma
í senn efni ljóðsins og kveðandi þess, hljómkviðunni, yfir á íslenskt mál.
Fyrsta erindið í þriðju atlögu Þorsteins frá Hamri að ljóðinu hljómar svo:14
Nóttu eina nöturlega
nam ég, sleginn kröm og trega,
kynleg fræði fyrri tíða,
fornar skriftir ásjár bað,
valdi svefnsins verjast reyndi -
var þá líkt sem högg ég greindi,
eins og hóglát hönd því beindi
hússins luktu dyrum að.
„Gestur,“ kvað ég hálfum hljóðum,
„húsum mínum kemur að -
einhver gestur - aðeins það.“
Þorsteinn fer þá leið að draga úr dramatískum þunga leiðarrímsins með því
að nota „að“ og „það“ og orð sem ríma þar á móti sem gefur honum ýmsa
kosti í glímunni við ore-rímið en jafnframt hefur hann ekki fast orðalag í
stað „nevermore“. Ástæðan fyrir því að Helgi Hálfdanarson birti aldrei sjálfur
þýðingu sína á „Hrafninum" kann að vera sú að hann sætti sig ekki við að
geta ekki leikið eftir leiðarrímið með hinu „hrollkalda or-hljóði“ eins og hann
nefndi það þegar hann eitt sinn í grein um þýðingar vék að „Hrafni“ Poes.15
Og Helgi hefur meira að segja horfið frá því að hafa ákveðið leiðarrím í
gegnum allt kvæðið.
En þótt þeir Þorsteinn frá Hamri og Helgi Hálfdanarson reyni ekki að leika
eftir hinn dramatíska þunga í ore-hljóðinu eða hið fasta svar hrafnsins, þá end-
urskapa þýðingar þeirra eigi að síður hinn magnþrungna og seiðandi hljóm og
hljóðheim frumtextans - og raunar má segja að þeir nýti sér hið aukna svig-