Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 8
6
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
fráleit og augljóslega röng. Tilvera þjóðkirkju í landinu hindrar ekki trúar-
iðkun fólks sem aðhyllist önnur trúarbrögð og þar með ekki heldur að því
fólki leyfist að byggja sín tilbeiðsluhús. Þetta er það sem kallast trúfrelsi, er
áskilið í stjórnarskránni og nær til allra trúfélaga og trúarbragða sem halda
sig innan marka „góðs siðferðis og allsherjarreglu", eins og þar segir. A þetta
var strax bent, meðal annars af talsmönnum þjóðkirkjunnar. En í framhaldi
af því gaus upp heiftarleg umræða sem beindist gegn Framsóknarflokknum
með alls kyns rangtúlkunum og tilhæfulausum áburði. Sagt var að flokkurinn
væri að marka sér svið sem rasískur flokkur sem geri út á útlendingaandúð og
hatur á innflytjendum. Þetta gekk svo langt að farið var að líkja framgöngu
flokksins við gyðingaofsóknir nasista! Umræðan fór þannig gjörsamlega úr
böndunum, sem því miður er of algengt hér um slóðir.
Ef reynt er að greina æsingalaust hvað þarna er á ferðinni, hljótum við að
viðurkenna að það er réttmætt að hafa vara á sér gagnvart vaxandi innflutn-
ingi fólks af öðrum menningarheimum hingað til lands. Ég tel að þau ummæli
sem leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavík lét falla og ollu svo miklu upp-
þoti hafi verið af því sprottin, þótt illa tækist til í framsetningunni í byrjun,
alls ekki af einhverju útlendingahatri. Önnur hlið á þessu máli varðar borgar-
skipulag, hvar moskan ætti að standa, og hvort yfirvöld eigi að taka gjald fyrir
lóðina fremur en kirkjulóðir, en slíkt er vitanlega aukaatriði í þessu samhengi.
En þetta moskumál var blásið upp úr öllu hófi og sameinuðust aðrir stjórn-
málaflokkar í vandlætingu gagnvart Framsóknarflokknum. Minntu viðbrögð
þeirra mest á bæn faríseans sem þakkaði Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir
menn. Hins vegar varð þessi hvellur til að efla gengi flokksins í kosning-
unum. Eftir kosningar hefur svo verið reynt að halda lifandi þeirri skoðun að
Framsóknarflokkurinn beri sérstaka ábyrgð á „hatursorðræðu" og „rasisma“
í þjóðfélaginu. Eins og fólk hafi ekki vitað af slíkum tilhneigingum hér fyrr
en „moskumálið“ kom upp.
Auðvitað er það svo þegar viðkvæm mál komast á dagskrá að ýmislegt
vanhugsað er látið fjúka. Þannig heyrði ég konu nokkra segja þegar um þetta
var rætt, að hún ætlaði ekki að afhenda þessu fólki eldspýturnar! Þarna er
skírskotað til hins fræga leikrits, Biedermann og brennuvargarnir eftir Max
Frisch. Það er ofstækisfullur hugsunarháttur að ætla útlendingum sem hingað
flytjast að þeir hyggist gerast brennuvargar í þjóðfélaginu, eins og þeir sem
fluttu inn á Biedermann, fylltu hús hans af bensíni og fengu hann loks til að
gefa sér eldspýtur. Við eigum ekki að ætla öðru fólki slíkt að óreyndu. Með
því að fallast á fjölmenningarsamfélagið, og annað er ekki í boði nú á dögum,
verðum við að virða siði og menningu annarra að vissu marki, en krefjast þess
undanbragðalaust af öllum að þeir hlíti grundvallarreglum mannúðlegs þjóð-
skipulags. Umfram allt verðum við að þola umræðu um þessi mál og leitast
við að halda henni í skaplegum farvegi.