Peningamál - 23.11.2022, Blaðsíða 6
Peningamál í hnotskurn
Þótt alþjóðlegur hagvöxtur hafi verið heldur meiri á fyrri hluta þessa árs en áður var áætlað eru
vísbendingar um að hann hafi gefið meira eftir á seinni hluta ársins. Horfur fyrir næsta ár hafa
einnig versnað. Orkukreppan sem skall á í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu heldur áfram
að dýpka og alþjóðleg verðbólga hefur aukist mikið. Framfærslukostnaður heimila og rekstrar-
kostnaður fyrirtækja hafa því hækkað verulega og fjármálaleg skilyrði versnað. Hagvaxtarhorfur
fyrir helstu viðskiptalönd hafa því versnað enn frekar og á næsta ári er spáð minnsta hagvexti í
helstu viðskiptalöndum frá árinu 2009 að frátöldum þeim samdrætti sem varð árið 2020 í kjölfar
heimsfaraldursins.
Bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga benda til þess að hagvöxtur hér á landi hafi verið 6,8% á
fyrri hluta ársins sem er heldur minni vöxtur en gert var ráð fyrir í ágústspá bankans. Talið er
að hagvöxtur verði 5,6% á árinu í heild sem er 0,3 prósentum minni vöxtur en áður var spáð.
Horfur fyrir næsta ár hafa hins vegar batnað og nú er spáð 2,8% hagvexti í stað 1,9% í ágúst.
Þar vega horfur um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar þungt, m.a. vegna þess að endurskoð-
aðar tölur um þróun ráðstöfunartekna benda til þess að heimilin hafi meira borð fyrir báru til að
styðja við útgjöld sín en áður var áætlað. Svipað og í ágúst er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði
um 2½% á ári að meðaltali á seinni hluta spátímans.
Þótt störfum fjölgi enn milli ára hefur hægt á fjölguninni undanfarna mánuði og á þriðja árs-
fjórðungi fækkaði þeim lítillega milli fjórðunga. Atvinnuþátttaka minnkaði einnig og atvinnuleysi
jókst milli fjórðunga samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Aðrar vísbendingar af
vinnumarkaði benda í sömu átt þótt atvinnuleysi sé áfram lítið, mikill skortur sé enn á vinnuafli
og fjöldi lausra starfa mikill. Álag á framleiðsluþætti er því enn töluvert.
Verðbólga mældist 9,4% í október og jókst lítillega milli mánaða en hefur minnkað um 0,5
prósentur frá því að náði hámarki í júlí sl. Undirliggjandi verðbólga mælist einnig mikil og er
verðbólga á sífellt breiðari grunni enda hefur meirihluti undirliða vísitölu neysluverðs hækkað
talsvert í verði undanfarið ár. Verðbólga hefur þó ekki aukist eins mikið og óttast var í ágúst
sem endurspeglar hraðari viðsnúning á húsnæðismarkaði og meiri lækkun eldsneytisverðs og
flugfargjalda sl. haust en þá var gert ráð fyrir. Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa því batnað
en horfur lengra fram á veginn hafa lítið breyst. Nú er gert ráð fyrir að verðbólga verði 9,4% á
síðasta fjórðungi ársins en taki svo smám saman að hjaðna í svipuðum takti og spáð var í ágúst.
Mikil óvissa er í efnahagsmálum. Stríðsátökin í Úkraínu hafa valdið miklu umróti á alþjóðleg-
um hrávörumörkuðum og sett viðskiptasambönd og aðfangakeðjur í uppnám. Átökin hafa
leitt til orkukreppu í Evrópu sem ekki sér fyrir endann á. Svo gæti farið að það yrði alvarlegur
orkuskortur sem kallaði á víðtæka skömmtun á orkugjöfum sem leitt gæti til mikilla efnahags-
þrenginga í álfunni. Gerist það er líklegt að hagvöxtur verði minni hér á landi en grunnspá
bankans gerir ráð fyrir og verðbólga meiri. Verðbólguhorfur gætu einnig reynst of bjartsýnar ef
yfirstandandi kjaraviðræður leiða til þess að laun hækki meira en grunnspá bankans gerir ráð
fyrir. Þá yrði aukin hætta á að víxlverkun launa og verðlags fari af stað þar sem vísbendingar eru
um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst.
Greiningin í þessum Peningamálum byggist á gögnum sem lágu fyrir um miðjan nóvember.
PENINGAMÁL 2022 / 4 6