Peningamál - 23.11.2022, Blaðsíða 63
PENINGAMÁL 2022 / 4 63
hægt að bólusetja heimsbyggðina og hversu áhrifarík bólu-
efni yrðu í að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Eftir því
sem leið á urðu enda miklar breytingar á hagvaxtarhorfum
sem endurspegluðu að stærstum hluta gang faraldursins og
ýmist þess árangurs sem vannst eða þess bakslags sem varð
í baráttunni við hann á hverjum tíma.
Fyrsta spá bankans um efnahagshorfur fyrir árið 2021
eftir að farsóttin skall á var birt í maíhefti Peningamála árið
2020. Þær einstöku aðstæður sem þá voru uppi og sú óvissa
sem ríkti gerðu alla spágerð með eindæmum erfiða og fá
fordæmi voru um viðlíka atburði sem hægt var að byggja
á. Forsendur spárinnar voru að faraldurinn næði hámarki á
öðrum fjórðungi ársins 2020 og að efnahagsumsvif myndu
í kjölfarið smám saman færast í eðlilegt horf. Eftir því sem
leið á árið 2020 varð þó ljóst að lengri tíma tæki að vinna
bug á farsóttinni og að áhrifa hennar myndi gæta í meiri
mæli á árinu 2021 en í fyrstu var talið. Raunin varð sú að
áfram var mikill þungi í farsóttinni hér á landi á árinu 2021
en sóttvarnaráðstafanir voru aftur á móti minni en árið áður,
sér í lagi á seinni hluta ársins. Bólusetning varð almennari eftir
því sem leið á árið og að auki gekk fyrirtækjum og heimil-
um betur að aðlaga starfsemi sína og athafnir að breyttum
aðstæðum. Þegar komið var fram á árið 2021 gætti því auk-
innar bjartsýni í spám bankans.
Fyrstu spár um útflutning reyndust of bjartsýnar og lituðu
hagvaxtarspár fyrir árið 2021
Þegar farsóttin kom upp snemma árs 2020 var ljóst að áhrif
hennar á vilja og getu fólks til ferðalaga yrðu veruleg og að
búast mætti við mikilli fækkun ferðamanna hingað til lands. Í
spá Peningamála í maí árið 2020 var spáð að komum þeirra
myndi fækka um 80% á árinu 2020 en þar sem búist var við
að farsóttinni yrði lokið þegar kæmi fram á árið 2021 myndi
ferðamönnum fjölga hratt á ný á því ári. Þó yrðu þeir áfram
helmingi færri en árið 2019. Horfur um stórfellda fækkun
ferðamanna vógu því þungt í spánni um að landsframleiðsla
yrði 6,1% lægri árið 2021 en spáð hafði verið í febrúar. Samt
sem áður var gert ráð fyrir að hún myndi aukast um 4,8%
milli ára samanborið við 2,4% í febrúarspánni og skýrist það
af grunnáhrifum af samdrætti ársins 2020 (mynd 1). Þrátt
fyrir þá miklu óvissu sem var uppi á þessum tíma reyndist
þessi fyrsta spá bankans eftir að farsóttin kom upp í ágætu
samræmi við nýjasta mat Hagstofunnar um að hagvöxtur
ársins 2021 hafi verið 4,4%. Næstu spár bankans áttu þó
eftir að reynast of svartsýnar.
Þegar spá bankans var uppfærð í ágúst árið 2020
(Peningamál 2020/3) hafði farsóttin verið í rénun yfir sumarið
og gaf það tilefni til að ætla að samdráttur ársins 2020 yrði
minni en ella. Þó að litlar breytingar væru á horfum fyrir árið
Hagvaxtarspár Peningamála fyrir árið 20211
1. Spár PM 2020/2-2020/4 og 2021/1-2021/4 fyrir hagvöxt ársins 2021 ásamt
nýjasta mati Hagstofu Íslands. Myndin sýnir einnig spá PM 2022/1 sem er síðasta spá
bankans fyrir fyrstu áætlun Hagstofunnar á hagvexti ársins 2021.
Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands.
Breyting frá fyrra ári (%)
Mynd 1
0
1
2
3
4
5
6
Nýjast 22/1 21/4 21/3 21/2 21/1 20/4 20/3 20/2