Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Síða 54
Hæstaréttar verði að telja gengistryggingu skuldabréfsins ólög-
mæta. Sökum þess að málatilbúnaður bankans var eingöngu reistur
á því að um erlent lán væri að ræða þótti héraðsdómi málatilbún-
aður bankans vanreifaður og vísaði málinu frá dómi án kröfu. Mál-
inu var skotið til Hæstaréttar þar sem fimm dómarar komust að
samróma niðurstöðu um að fella hinn kærða úrskurð úr gildi með
eftirfarandi rökstuðningi:
Hrd. 520/2011 (GB Miðlun). „Ekki verður fallist á að skuldabréf það sem um
er fjallað í þessu máli sé sambærilegt skuldabréfum þeim sem um ræðir í
nefndum dómsmálum. Meðal annars kemur fjárhæð skuldbindingar sam-
kvæmt bréfinu í erlendum gjaldmiðlum hér skýrt fram þar sem greind er
fjárhæð skuldar. Svo sem greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní
2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum
laga nr. 38/2001. Framangreindir dómar Hæstaréttar eru því ekki fordæmi
fyrir ólögmæti þeirrar skuldbindingar sem um er fjallað í þessu máli. Sam-
kvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir
héraðsdóm að taka málið til meðferðar lögum samkvæmt.“
Sú afstaða, sem birtist í dómi Hæstaréttar í máli nr. 520/2011, var
áréttuð í tveimur samkynja dómum sem kveðnir voru upp í Hæsta-
rétti 23. nóvember 2011, sbr. mál nr. 551/2011 (Drómi I) og 552/2011
(Drómi II). Bæði þessi mál eru útivistarmál þar sem niðurstaða hér-
aðsdóms varð sú að vísa málunum frá dómi án kröfu með efnislega
sambærilegum rökstuðningi og í héraðsdómnum í máli nr. 520/2011.
Hæstiréttur, sem í báðum málunum var skipaður fimm dómurum,
komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að fella hina kærðu úrskurði
úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málin til löglegrar með-
ferðar. Í forsendum Hæstaréttar í báðum málunum er vísað til þess
að heiti samningsins/lánsins beri það með sér að um væri að ræða
skuldbindingu í erlendum myntum. Þá er vísað til þess að hinir er-
lendu gjaldmiðlar séu nákvæmlega tilgreindir annars vegar í samn-
ingnum sjálfum, sbr. mál nr. 551/2011 og hins vegar í lánsbeiðni, sbr.
mál nr. 552/2011. Með skírskotun til þessa taldi Hæstiréttur að fyrri
dómar réttarins væru ekki fordæmi fyrir ólögmæti þeirra skuld-
bindinga sem um var deilt. Tekið er sérstaklega fram að í þeim mál-
um, sem þar var leyst úr, hafi þessu verið ólíkt farið að því leyti að
þær skuldbindingar, sem krafist var efnda á, voru ekki tilgreindar í
erlendum gjaldmiðlum, heldur ýmist sem tilteknar fjárhæðir í ís-
lenskum krónum eða jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum er
skiptast skyldu eftir ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar
myntir. Samkvæmt þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli