Eimreiðin - 01.07.1899, Side 33
153
að enginn piltur hleypur þær uppi. — En aðallega skiftist fólkið í
tvo flokka: auðmannastéttina og alþýðuna. Auðmennirnir féfletta
alþýðuna, og alþýðan launar það með því, að kjósa þá fyrir þing-
rnenn og koma þeim í feitustu embættin.
Þess má geta, að Kanada hefir aðeins skamman tíma verið
bygð af slíkri dugnaðar og framfaraþjóð, sem nú höfum vér lýst.
Aður var landið bygt af þjóðflokki þeim, er Rauðskinnar nefnast,
og eru þeir nú óðum að líða undir lok. Ekki ber mönnum
saman um, hvaðan fólk það hafi í öndverðu til landsins komið;
ætla sumir, að það séu afkomendur apaflokks eins, sem nú finst
hvergi nema i Afríku. Aðrir ætla, að þeir hafi komið firá Asíu,
og synt yfir Bæringssund; og einn hálærður vísindamaður, sem
hefir gert það að lifsstarfi sínu, að rannsaka uppruna þeirra, hefir
komist að þeirri niðurstöðu, að þeim hafi rignt niður úr tunglinu.
n.
Um það leyti sem þjóðaflutningur var sem mestur frá Norð-
urálfu til Kanada, var uppi sá maður, er nefndi sig Samúel H.
Johnson. Hann bjó í borg þeirri, er Halífax heitir; það er sjóborg
í Austur-Kanada. Hann var útlendingur og hét réttu nafni Svein-
þór Jóhannsson. Það nafn hafði hann, þangað til hann kom til
Kanada, er Sveinþór breyttist í Samúel, og Jóhannsson í Johnson.
Hvað þetta stóra H. átti að þýða, sem stóð í miðju nafninu, var
ekki lýðum ljóst, því Johnsson skýrði engum frá því. Þegar saga
þessi byrjar, var hann enn á bezta aldri, aðeins þrjátíu og fjögra
ára gamall, og kominn hingað til Kanada fyrir átta árum. Hann
var fæddur á Norðurlöndum, og var það eitt einkennilegt við fæð-
ingu hans, að hann fæddist andvana. En ljósmóðirin, — ógift, en
hámentuð kona, sem í æsku hafði gengið á tvo kvennaskóla og
átt sitt barnið á hvorum — orgaði og kurraði í eyru hans bæði
hátt og lengi, unz hann opnaði augum og setti upp væl mikið.
Þegar hún heyrði það, færðist hún í aukana og kurraði í eyru
hans enn hærra en áður, unz henni þóttu næg lifsmörk koma í
Ijós hjá sveininum. Þá lagði hún hann frá sér og gat þess um
leið, að þetta væri fimta barnið, sem hún hefði lifgað; það er að
segja af þeim, sem hefðu fæðst steindauð, en auk þess hefði hún
lífgað sjö, sem lif hefði leynst með í fæðingunni. Síðan var
sveinninn skírður helgri skírn og nefndur Sveinþór. Olst hann