Eimreiðin - 01.07.1899, Side 34
154
upp hjá foreldrum sínum, og kom það brátt i ljós, að talsverður
dugnaður mundi verða í honum. Þriggja ára gamall henti hann
steini i auga á lítilli stúlku, svo hún misti sjónina á auganu; og
fjögra ára gamall hengdi hann kött. Hann var ódæll, hrekkjóttur
og slægvitur, og í öllum leikjum við jafnaldra sína varð hann einn
öllu að ráða. Leið svo tíminn þangað til hann var kristnaður,
og reyndist hann við lærdóminn skarpur og gáfaður. Hann var
mjög gefinn fyrir að græða; seldi sauðfé og keypti, og mátti svo
heita, að hver peningur tvöfaldaðist í höndum hans. Þegar hann
var átján ára, fór hann frá foreldrum sínum, og vistaðist sem
sauðamaður hjá ríkisbónda í sveitinni. Þar var hann i þrjú ár og
undi vel hag sínum, að öðru leyti en því, að hann þóttist ekki
græða nóg. Um það leyti byrjuðu fólksflutningar til Ameríku,
og var mikið látið af landskostum þar. Hneigðist hugur allmargra
til vesturferða, því þar áttu allslausir menn að geta orðið auðugir
á skömmum tima. Sveinþór virtist, að hann mundi seint verða
að manni í því landi, sem hann var fæddur í, og afréð að flytja
vestur. Seldi hann þá hross sín og sauðfé og aðrar eigur, og
flutti vestur ásamt nokkrum öðrum mönnum. Komu þeir til
Kanada að áliðnu sumri og settust að í borginni Halifax. Þar
dvaldi Sveinþór veturinn eftir, og átti örðugt uppdráttar, því lítið
var um atvinnu, en hann skildi lítt tungu landsmanna. Um vorið
fór hann burtu úr bænum og vann þá ýmist að bændavinnu, eða
við járnbrautarlagning. Eitt sumar fór hann til Bandaríkjanna, og
alt til borgar þeirra, er St. Louis heitir. A þessu ferðalagi var hann
fjögur ár, og kom síðan aftur til Halifax. Þá var hann búinn að
kasta föðurlandsgervinu, og orðinn »vurry, vurry Amurrican«, eins
og Max O’Rell segir; talaði hérlenda tungu sem innfæddir menn
og barst mikið á. Nokkrir landar hans áttu heima í borginni, og
lifðu af daglaunavinnu. Það þótti Sveinþór lítilmannlegt, og áleit
tíma til kominn, að hætta að vinna stritvinnu. Hann setti upp
matvöruverzlan þar í borginni; hændust landar hans mjög til að
verzla við hann, og leita ráða til hans í viðlögum, þvi margir
þeirra kunnu ekki hérlent mál. Hann var málsnjall og ísmeyginn
og hafði gott lag á að koma sér fram; smjaðraði fyrir mönnum,
ef honum þótti svo við eiga, en beitti hörku og ásælni, þar sem
hann þorði. Verzlun hans blómgaðist og stækkaði og að sama
skapi óx álit hans, og mátti hann heita fyrirliði landa sinna. Kom
nú svo, að innlendir menn tóku að veita honum eftirtekt, því þeir