Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1976, Blaðsíða 65
ÓLAFUR F. HJARTAR
Nordahl Grieg og Friheten
Sú fullvissa er fædd í oss öllum,
að frelsið sé líf hvers manns,
jafn einfalt og eðlisbundið
sem andardráttur hans. J)
Sennilega verða flest frelsisljóð til vegna ófriðar, kúgunar eða
fjötra. Ofangreindar ljóðlínur eru úr kvæði Nordahls Grieg, Sautjánda
maí 1940. Skáldið las upp ljóðið í fyrsta sinni í útvarpið í Tromso á
örlagastundu. Nazistar réðust sem kunnugt er inn í Danmörku og
Noreg 8. og 9. apríl 1940. Viðnám var lítið hjá Dönum, en Norðmenn
gripu óviðbúnir til vopna. Englendingar komu til hjálpar með her
til Norður-Noregs. Þar urðu harðir bardagar, en Þjóðverjar hröktu
Englendinga úr landi, og Norðmenn urðu að leggja niður vopn.
Hákon konungur, Ólafur ríkisarfi og ríkisstjórnin yfirgáfu Noreg 17.
júní og héldu í útlegð til Englands. Það var því enginn gleðibragur
yfir þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí, þegar Nordahl Grieg
flutti kvæði sitt í þessum norðlæga bæ.
Á Eiðsvelli stöngina auða
yfir angandi limið ber.
En fyrst nú í dag vér finnum,
hvað frelsið í rauninni er:
Um landið fer sigrandi söngur,
er svellur frá ströndu til fjalls,
þó að hvísli honum hálfluktar varir
undir heroki kúgaravalds.
Sú fullvissa er fædd í oss öllum,
að frelsið sé líf hvers manns,
jafn einfalt og eðlisbundið
sem andardráttur hans.
*■) Öll ljóð og ljóðlínur, sem birt eru í þessari grein, eru þýdd af Magnúsi Ásgeirssyni.