Andvari - 01.01.1993, Page 9
ANDVARI
FRÁ RITSTJÓRA
7
ekki annars orðið vart en þeir sem hafa skilning á nútímasjónarmiðum í
fjölmiðlun fagni þessari framvindu.
Með því sem gerðist í Ríkisútvarpinu í vor var hjóli þróunarinnar snúið
til baka og útvarpinu svipt aftur til fortíðarinnar þegar pólitíska valdið
horfði yfir öxl stjórnenda þess, reiðubúið að grípa í taumana ef því sýndist
svo. Útvarpsstjóri neyddist vegna samskiptaörðugleika til að víkja dag-
skrárstjóra sjónvarps frá störfum og hefur enginn vefengt lögmæti þeirrar
embættisgerðar. Að fáum dögum liðnum brást ráðherra við henni með því
að veita framkvæmdastjóra sjónvarps ársleyfi, án samráðs við útvarps-
stjóra, og setja hinn brottrekna dagskrárstjóra í þá stöðu. Út af þessu varð
mikill hvellur, á alþingi og í fjölmiðlum. Blandaðist margt inn í þá umræðu
og skal ekki um það fjallað hér. En að því er að Ríkisútvarpinu snýr voru
þessi tíðindi mjög alvarleg og verða ekki talin annað en tilræði við sjálf-
stæði stofnunarinnar sem á sér tæpast nokkra hliðstæðu í allri sögu hennar.
Pegar þetta er ritað er ekki ljóst hverjar afleiðingar þessa dapurlega máls
verða fyrir Ríkisútvarpið, en skaða hefur stofnunin af því beðið, um slíkt
blandast engum hugur. Rílíisútvarpið hefur verið ein allra þýðingarmesta
menningarstofnun landsins og notið trausts þjóðarinnar öðrum fjölmiðlum
fremur, þótt deilt hafi verið á stjórnendur þess fyrir eitt og annað eins og
óhjákvæmilegt er. Þessu trausti, sem byggt hefur verið upp á mörgum ára-
tugum, geta stjórnvöld fyrirgert á skömmum tíma ef framhald verður á
valdbeitingu af því tagi sem hér var á ferðinni. Ef almenningur hefur
ástæðu til að ætla að stofnunin sé ekki sjálfstæð, heldur ofurseld pólitískum
duttlungum ráðamanna hverju sinni, missir fólk líka það traust sem er for-
senda þess að Ríkisútvarpið geti gegnt skyldu sinni.
Stjórnskipun útvarpsins er nú í endurskoðun og ósýnt hvaða breytingar
kunna að verða gerðar á henni. Hefur jafnvel verið rætt um að skipta
stofnuninni skipulagslega upp í útvarp og sjónvarp, aðskilja fjárstjórn
þeirra deilda og veikja þar með sameiginlega yfirstjórn. Sumir munu vilja
ganga svo langt að liða stofnunina nánast alveg sundur. En vafasamt er að
almenningur í landinu, sem lætur sér annt um þessa stofnun, sé tilbúinn að
fallast á að hún verði veikt með vanhugsuðum stjórnvaldsaðgerðum. Þeir
fjölmiðlar, stórir og smáir, sem láta sig menningarmál varða, hljóta að fylgj-
ast vandlega með framvindunni í málum Ríkisútvarpsins. Það skiptir miklu
að heilbrigður starfsandi ríki innan stofnunarinnar, en íhlutun ráðherra í
yfirstjórnina í vor varð mjög til að spilla honum eins og sjá mátti fyrir. Og
fagleg vinnubrögð í sjónvarpi hafa eftir þessa atburði síst batnað eins og
glöggt kom fram í „stjórn“ ungra viðvaninga á mörgum umræðuþáttum þar
nú í sumar, að ógleymdum þáttum um íslandssögu í vor, sem frægir urðu
að endemum. Þar voru brotnar allar grundvallarreglur um hvernig standa á
að verki til að fræðilegum kröfum sé fullnægt.