Andvari - 01.01.1993, Side 29
ANDVARI
PÁLMI JÓNSSON
27
Póstverslanir, sem gefa út vörulista svipaðan þeim, sem hér er á ferðinni,
hafa rutt sér mjög til rúms erlendis á undanförnum árum, og fara vinsældir
þeirra stöðugt vaxandi. Fólk hefur tekið fegins hendi þeim þægindum, sem
verslunarfyrirkomulag þetta veitir, og metið að verðleikum þann ávinning,
sem fólginn er í því, að í listunum eru flestar vörur seldar á stórum lægra
verði en almennt gerist. Stafar það, auk hagkvæmra innkaupa, meðal annars
af geysimikilli umsetningu þessara fyrirtækja og tiltölulega lágum rekstrar-
kostnaði.
Þá kom fram, að lágmarksvörupöntun væri 100 krónur, en ef pantað
væri fyrir þúsund krónur eða meira, greiddi Hagkaup flutningskostn-
að. Vörur væru aðeins seldar gegn staðgreiðslu. í vörulistunum
kenndi margra grasa. Þar voru sumarkjólar á 650 krónur, poplín-
kápur fyrir konur á 910 krónur, tveggja lása nælongalli fyrir smá-
krakka á 555 krónur, ferðaritvélar á 2.712 krónur, kaststengur fyrir
veiðimenn á 381,30 krónur, sokkabandabelti á 75 krónur, nælonsokk-
ar á 51,90 krónur, ullarjakkaföt fyrir karlmenn á 1.975 krónur,
tveggja manna tjöld á 780 krónur, raðstólar úr birki á 445 krónur,
100 grömm af brilljantín-hárkremi á 14 krónur, gólfteppi á 500 krón-
ur á fermetra, heimilistæki frá Rafha og svo framvegis.
Margir kaupmenn voru gramir Pálma fyrir að bjóða niður vörur
fyrir sér, en almenningur tók Hagkaup strax mjög vel. Næstu árin
færði fyrirtækið út kvíarnar.26 Árið 1964 hóf Hagkaup rekstur sauma-
stofu í Bolholti, og voru birgðageymsla fyrirtækisins og póstverslunin
líka þar til húsa. Einfaldur saumur var sendur út til húsmæðra.
Þekktasta flíkin, sem saumastofa Hagkaups framleiddi, var Hag-
kaupssloppurinn svonefndi, en hann var landsþekktur á sinni tíð.
Pálma hafði tekist að ná í ódýrt efni í Þýskalandi og keypti mjög
stóra sendingu; hefðu strangar hennar verið lagðir niður, hefðu þeir
náð frá Reykjavík austur á Hellu. Þegar framleiðslu hagkaupsslopp-
anna var hætt, höfðu selst á annað hundrað þúsund þeirra. Hagkaup
opnaði aðra verslun árið 1964 í Lækjargötu 4, í sama húsi og Versl-
unarmannafélag Reykjavíkur hafði verið stofnað 27. janúar 1891. Þar
var um skeið rekin tískuverslunin Kyss Kyss, en síðar var þar aðal-
lega seld venjuleg vefnaðarvara. Jafnframt var Hagkaupsverslunin í
Eskihlíð rekin áfram af miklum krafti. Og árið 1966 var Pálmi Jóns-
son í Hagkaup orðinn hæsti skattgreiðandi í Reykjavík, með
1.206.723 krónur í opinber gjöld.27