Andvari - 01.01.1993, Blaðsíða 47
ANDVARI
PÁLMI JÓNSSON
45
til þess að fá þá til að breyta reglum sínum.55 Samkeppnisnefnd sam-
þykkti loks reglur Félags íslenskra bókaútgefenda um það, að útsölu-
verð bóka skyldi vera hið sama á öllu landinu og að útgefendur
ákvæðu sjálfir þetta verð. Hagkaup skaut málinu til dómstóla, en
tapaði því.56 Hagkaup fékk að selja bækur, en var gert að setja upp
sama verð fyrir þær og bóksalar; einnig þurfti Hagkaup að greiða
málskostnað. Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi sagði síðar
um Pálma: „Hann er harður bissnismaður, kappsamur og fylginn sér.
Það, sem kom mér á óvart, þegar ég kynntist þeim Hagkaupsmönn-
um, var, að lágt vöruverð er þeim töluvert hugsjónamál. Eg hafði
haldið, að þetta væri bara frasi, búinn til í auglýsingaskyni, en hann
hefur mun dýpri merkingu. Þeir meina það, sem þeir segja. Stundum
minnir þetta á heilaga krossferð.“57
Tveimur árum síðar, 1983, lenti Hagkaup aftur í miklum átökum.
Einn starfsmaður fyrirtækisins, Eldjárn Magnússon, hafði farið á heilsu-
viku norður á Húsavík og fengið þar jógúrt, sem honum fannst miklu
betri á bragðið en hann gat fengið fyrir sunnan. Nefndi hann þessa
uppgötvun sína við forráðamenn Hagkaups, sem leist strax vel á að
prófa þessa vöru. Sömdu þeir við Harald Gíslason, mjólkursamlags-
stjóra á Húsavík, um að kaupa jógúrt frá Mjólkursamlagi Kaupfélags
Þingeyinga; var jógúrtin þaðan ódýrari og almennt talin betri á bragðið
en jógúrt frá Mjólkursamsölunni, enda rokseldist hún, eftir að hún kom
á markað í Hagkaupsbúðunum í maíbyrjun 1983. En sá hængur var á,
að landinu var skipt á framleiðslusvæði, og mátti aðili á einu svæði ekki
selja á annað (svipað því, sem var á dögum einokunarverslunarinnar
dönsku, þegar maður úr Hafnarfirði mátti ekki versla í Keflavík og öf-
ugt). Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnti, að sala þingeysku jóg-
úrtarinnar í Hagkaupsbúðunum væri brot á reglugerð um starfsemi
Framleiðsluráðs; Hagkaup yrði að fá sérstakt leyfi frá Mjólkursam-
sölunni í Reykjavík, ef það ætlaði að selja mjólkurafurðir frá öðrum
stöðum á landinu. „Það er ætlast til, að samræmi sé á verði mjólkuraf-
urða um land allt. Samkeppnin á að vera í fjölbreytni afurða, en ekki
verði,“ sagði Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda.58
Hagkaup naut samúðar almennings og blaðanna í þessu máli. Gísli
J- Astþórsson birti til dæmis skopmynd í Morgunblaðinu, þar sem
maður sást lesa upp úr blaði eftirfarandi frétt: „Þeir voru að nappa
tvo smyglara, annan með hass og heróín á Keflavíkurflugvelli, hinn
með jógúrthyrnu fyrir utan sýslumörk Þingeyjarsýslu.“59 Jónas