Andvari - 01.01.1993, Page 153
ANDVARI
TVEIM TUNGUM
151
þegar honum tókst best upp, svo sem í nornaþulunni frægu sem hefst á
orðunum „Meðan gyllir máni höf,/ maurinn lýsir rakan svörð,/ haugaeldur
hlær á gröf,/ hrælog sveipa mýrarjörð,“ o.s.frv. þar sem þrúðgur galdur
stælts stuðlamáls glumdi í eyrum þess sem las, svo hárin risu á höfði hans.
Þetta mega kallast krókaleiðir að því efni sem ætlunin er að gera nokkur
skil hér, en það er í fyrsta lagi Eyðilandið (The Waste Land) eftir T. S. El-
iot í þýðingu Sverris Hólmarssonar, sem kom út hjá Iðunni 1992, og Útlegð
(Exil) og fleiri verk eftir Saint-John Perse í þýðingu Sigfúsar Daðasonar
sem komu út í bók hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi 1993. Þessar bækur
eiga það ekki einungis sameiginlegt að vera „tvítyngdar“, þar sem frum-
texti er prentaður með þýðingunni, heldur fylgja þeim báðum einnig grein-
argóðir eftirmálar og skýringar. Þar fyrir utan er um tvö höfuðskáld þessar-
ar aldar að ræða, annan á enska tungu en hinn á franska, og ættu þessar
bækur því að vekja forvitni landsmanna, svo ekki sé meira sagt. Á því hef-
ur að vísu ekki mikið borið fram að þessu, og trúlega er koma þessara bóka
á fárra vitorði, og mætti spyrja hverju það sætti meðal bókmenntaþjóðar. í
raun réttri væri þó miklu nær að spyrja hvers vegna þessi skáld hafi ekki
verið á ferðinni hér miklu fyrr, sé haft í huga að hér er um mikla áhrifa-
valda í bókmenntum þessarar aldar að ræða og raunar ekki neina nýliða í
skáldskap þar sem báðir eru fæddir fyrir meir en öld, Saint-John Perse árið
1887 en Eliot árið 1888. Bæði verkin eru frá fyrri hluta þessarar aldar og
hafa haft ómæld áhrif á eftirkomendur, einkum Eyðilandið. Áður hafa að
vísu komið eftir þessa höfunda brot úr verkum í íslenskri þýðingu, en það
að heil kvæði eftir þá hafi ekki borist hingað fyrr en nú undir aldarlok vek-
ur vissulega spurningar um stöðu okkar íslendinga gagnvart menningu um-
heimsins. Oft er eins og við séum í litlum takti við aðrar Evrópuþjóðir í
þeim efnum, og hefði til að mynda Eyðilandið borist hingað skömmu eftir
að það var ort, eða á þriðja áratugnum, þá hefði það vægast sagt orðið
harla hjáróma við þá nýrómantísku ljóðagerð sem hér var mest í tísku á ár-
unum milli stríða, meðan þjóðin fagnaði enn fengnu sjálfstæði og skáldin
svifu um loftin blá á purpuraskýjum draumanna eða reikuðu um Austur-
stræti í leiðslu líkt og þau væru á Ódáinsvöllum. Sú rómantík sveif raunar
enn yfir vötnunum á kreppuáratugnum, þótt draumar manna beindust þá
meir í aðra og samfélagslegri átt.
Það þurfti heimsstyrjöldina síðari og þær breytingar á þjóðfélagi og lífs-
háttum er fylgdu í kjölfar hennar til að hér sköpuðust móttökuskilyrði fyrir
Ijóðlist af því tagi er Eliot og hans mátar höfðu uppá að bjóða. Á grund-
velli stríðsgróðans var nú tekið til við nýsköpun á öllum sviðum, og sú flóð-
bylgja erlendra áhrifa sem þá reið yfir hlaut að kalla á endurskoðun og
uppgjör við gömul gildi og að skipta þjóðinni niður í tvo ef ekki þrjá hópa í