Andvari - 01.01.1993, Qupperneq 154
152
KRISTJÁN ÁRNASON
ANDVARI
menningarlegu tilliti. Þeir, sem hvorki féllu í hít amerískrar lágmenningar
né brynjuðu sig gegn nýjungum með þjóðlegheitum og eymennsku, sáu að
það var ekki seinna vænna að reyna að ná í skottið á þeirri framúrstefnu
eða módernisma sem hafði leikið lausum hala sunnar í álfunni frá því fyrir
aldamót og raunar komið talsvert tómahljóð í. En nú tróðu fram á sjónar-
sviðið hér á Islandi svonefnd atómskáld eftirstríðsáranna, og í þeirra hópi
var enginn maður með mönnum nema hann þekkti svo og svo mikið til El-
iots, enda var nafn hans á hvers manns vörum í hópi kaffihúsaspekinga. En
atómskáldin virtust hafa á því tröllatrú að eitthvað nýtt og merkilegt væri í
aðsigi og að öll viðtekin gildi og lífsviðhorf væru úrelt og mættu fara á
haugana eins og hver önnur frumstæð verkfæri og amboð á nýsköpunar-
tímum. Þetta gilti ekki síst um þann draug sem þeir nefndu „hið hefð-
bundna ljóðform“ og þreyttust ekki á að lýsa „dautt, já steindautt“ eða að
minnsta kosti „hrunið“. I stað ljóðabálka með skýrri hugsun eða boðskap
og undir sterkri, háttbundinni hrynjandi skyldu koma „hrein“ ljóð undir
svonefndu „frjálsu ljóðformi“, sem voru mest í ætt við abstrakt myndlist,
ljóð sem „merktu ekkert en voru“ og miðuðu að því að koma laglega hag-
orðum framsóknarbændum og forstokkuðum borgurum á óvart með
„djörfum“ myndhverfingum og kostulegum uppátækjum, svo sem því að
láta „hvítfextar hugsanir“ laumast út um „bakdyr eilífðarinnar“ og öðru í
þeim dúr.
Þetta kann nú allt að hafa verið gott og blessað og jafnvel bráðnauðsynlegt,
en ekki þar með sagt að T. S. Eliot hafi verið skálda best til þess fallinn að
vera fánaberi slíks og þvílíks nema síður væri, hvort heldur var niðurrif hins
hefðbundna eða trúar á fagra nýja veröld, og ef betur var að gáð var óra-
vegur milli þessa afsprengs rótgróins vesturlensks húmanisma og bumbu-
slagara formbyltingar í Reykjavík eftirstríðsáranna. í rauninni var hér á
ferðinni maður sem stóð föstum fótum í menningarhefð sem náði allt aftur
til grárrar forneskju og hafði þá yfirsýn til að bera sem gerði honum kleift
að horfast í augu við samtíma sinn í ljósi langrar hefðar. í stað þess að
óskapast út af hinu „hefðbundna formi“, talar hann á sína vísu máli hefðar-
innar og bundins máls í ritgerðum sínum, þar sem hann segir um hið svo-
nefnda frjálsa ljóðform eða „vers libre“ að það sé í rauninni ekki til og eng-
in list sé frjáls.1 Eliot hefur reyndar aldrei gefið sig út fyrir að vera frum-
herji neins módernisma sem slíks, enda var hann löngu til kominn áður en
Eliot kom fram á ritvöllinn, og þó að hann hafi sitthvað lært af stefnum
eins og symbólisma þeirra Mallarmés og Laforgues, svo sem það að ljá ein-
stökum orðum sem mest vægi og tákngildi, eða myndstefnu eða ímagisma
vinar síns Pounds, eða það að láta knappar myndir standa sem mest fyrir
sínu, þá má segja að ljóðlist hans hafi að ýmsu leyti þróast í þveröfuga átt