Andvari - 01.01.1993, Side 155
ANDVARI
TVEIM TUNGUM
153
við þá „algeru nútímamennsku“ sem krafist var af skáldum. Þegar betur er
að gáð voru íhaldssöm viðhorf hans jafnt til trúmála sem stjórnmála ekki
þess eðlis að þau gætu átt upp á pallborðið í hinum nýjungaglöðu kollegum
hans í braggamenningunni reykvísku. Það var því engin furða að Steinn
Steinarr, páfi téðra atómskálda, léti þau orð falla í frægu viðtali við Stein-
grím St. Th. Sigurðsson í Lífi og list 1950, undir yfirskriftinni „Hið hefð-
bundna ljóðform er nú loksins dautt“, að Eliot væri ekki annað en „leiðin-
legur kristinn hundur“. í sama streng tók raunar annar bókmenntapáfi
þessa tíma, Kristinn E. Andrésson, sem nefnir Eliot hina mestu stoð „borg-
aralegu afturhaldi“ þótt í annan stað „hið nýja hnitaða stálbeitta form“
hans geti verið gagnlegt þeim sem vilji „beita því í þágu framvindu mann-
kynsins“.2
Svo spakleg var nú bókmenntaumræðan í þann tíð, en kannski að við
getum nú, eftir að mesta moldviðrið kringum módernismann er yfirstaðið,
úr fjarlægð okkar post-módernu fjölhyggju og hugsjónaleysis nálgast við-
fangsefnið á annan hátt og þá kannski af meira hjartans lítillæti, enda hafa
sumir talið þann eiginleika forsendu skilnings í flestum efnum. Og tæplega
þurfum við nú, eftir um sjö áratugi frá útkomu Eyðilandsins að vera alltof
uppteknir af að skoða það sem framúrverk og bíta í skjaldarrendur út af
því, heldur ættum við í okkar aldarlokaspekt jafnvel að geta litið á það
annaðhvort sem vitnisburð um merkar andlegar hræringar fyrr á öldinni
eða þá sem óbrotgjarnt meistaraverk er skírskotar til allra tíma. Raunar
getur það tvennt farið saman, og þá gæti verið ómaksins vert fyrir þá sem
vilja nálgast það að gera sér fyrst nokkra grein fyrir þeim sögulegu og pers-
ónulegu forsendum sem það er sprottið úr, sem og þeim almennu lífsvið-
horfum er í því speglast. Það kemur sér því býsna vel fyrir lesendur þess
hér og nú að því skuli fylgt úr hlaði með mjög svo greinargóðum eftirmála
eftir þýðandann, Sverri Hólmarsson, þar sem brugðið er upp lifandi mynd
af ævi skáldsins, auk þess sem ritferill þess er rakinn eins ítarlega og slíkur
eftirmáli gefur rúm og tilefni til. Hér er lesandi einnig fræddur um misjafn-
ar túlkunarleiðir kvæðisins, svo sem það hvort heldur við eigum að líta á
það sem „napra krufningu á sjúkri samtíð“ eða þá, eins og menn hallast að
„í seinni tíð“, hvort við getum skoðað það „sem persónulega tjáningu
manns sem er staddur í sálar- og trúarkreppu“ og í því sambandi vitnað í
orð Eliots sjálfs þar sem hann segir: „Fyrir mig var það ekki annað en að
létta af mér persónulegum og öldungis ómerkilegum kvörtunum út af líf-
inu; það er bara nöldur í reglubundinni hrynjandi“ (bls. 76).
Hér er engu líkara en okkur sé stillt upp í valaðstöðu milli tveggja kosta, og
við slíkar aðstæður er ekki um annað að ræða en að leggja niður fyrir sér
það sem mælir pro og það sem mælir contra hvoru um sig. Það yrði sjálf-