Andvari - 01.01.2007, Page 7
Frá ritstjóra
Árið 2007 hefur verið helgað Jónasi Hallgrímssyni á tveggja alda afmæli
hans, og er þó afmælisdagurinn, 16. nóvember, ekki upprunninn þegar þessi
pistill er ritaður. Andvari birtir þrjár greinar sem varða Jónas af þessu tilefni.
Það verður að segjast að þessu skáldi skáldanna á íslandi hefur ekki verið
flaggað af neinum ákafa eða fyrirgangi á afmælisárinu hingað til og er raunar
ástæða til að þakka það; - svo virtist í hittiðfyrra þegar Danir minntust tvö
hundruð ára afmælis síns mesta skálds, H. C. Andersens, að þau hátíðahöld
hafi orðið mörgum þar í landi fremur til angurs en gleði, og er þá vissulega
verr af stað farið en heima setið. En vonandi verður Jónasar minnst hjá okkur
svo að sjá megi að hann eigi sín ítök í hug okkar og hjarta; sé ekki svo er víst
ástæða til að óttast um sálarheill þjóðarinnar.
Þegar minnst er skáldjöfra og annarra fremstu áhrifamanna í andlegu lífi
einnar þjóðar og stöðu þeirra í þjóðmenningunni er tvennt sem þarf að hyggja
að. Annars vegar eiga helstu fræðimenn hugvísinda að stunda markvissar
rannsóknir á ævi og verkum þess skörungs sem í hlut á. Hins vegar þarf að
miðla þeirri vitneskju og hugmyndum til almennings í landinu. Hættan er
jafnan sú að skáldið einangrist, verði fyrst og fremst efni í grúsk fræðimanna,
en almenningur láti sér fátt um finnast, og svo kann þá að fara að stór hluti
þjóðarinnar slitni beinlínis úr tengslum við menningararfinn. Hér er við
ramman reip að draga þar sem er gegndarlaus ágangur afþreyingariðnaðarins
sem þrengir sér inn í alla fjölmiðla, ekki síst sjónvarp og myndmiðla, með æ
meira afli og ófyrirleitni. Hvers mega sín jafnvel hin dýrustu verðmæti and-
legrar menningar andspænis slíku?
Ef litið er til Jónasar Hallgrímssonar í þessu samhengi verður ekki annað
sagt en hvors tveggja sé allvel gætt: Rannsóknir og skrif um Jónas og verk
hans hafa aukist verulega síðustu áratugi og áhugi almennings og kunnugleiki
virðist að minnsta kosti sæmilega lifandi. í Jónasarrannsóknum sem birst
hafa í bókum á síðustu áratugum reið Hannes Pétursson á vaðið með bókinni
Kvœdafylgsnum, sögulegum athugunum á tilurð ýmissa kvæða og skýringum
þeirra, 1979. Ári seinna kom síðasta ritverk Vilhjálms Þ. Gíslasonar, Jónas
Hallgrímsson og Fjölnir. Fjögurra binda fræðileg útgáfa á ritverkum Jónasar
með skýringum árið 1989 skipti vitanlega miklu í þessu samhengi og örvaði
athuganir og skrif um Jónas. Ritstjórar hennar voru Haukur Hannesson, Páll