Andvari - 01.01.2007, Síða 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
skoðanir Jónasar frá afstöðu samtímamanna okkar og svaraði því fyrstra orða
að hann hefði verið þjóðernissinni en nú væru menn alþjóðasinnar. I augum
slíkra manna kann boðskapur Jónasar og Fjölnismanna að virðast úreltur og
hallærislegur. En er ekki í þessari setningu aðeins orðaður hinn sjálfsagði vilji
okkar allra, að varðveita sérleik okkar sem Islendinga? Um leið vaknar óhjá-
kvæmilega sú spurning hvað í því felist að vera íslendingur. Er það eingöngu
sú hending að við erum borin og barnfædd og eigum heima á þessari eyju í
norðanverðu Atlantshafi? Á síðustu árum hefur orðið vakning um verndun
náttúrugersema gagnvart þeirri stóriðjustefnu sem flest vill færa í kaf. Þeir
sem helst hafa andæft slíkri stefnu á seinni árum þykjast vissir um að Jónas
Hallgrímsson væri í liði með þeim ef hann lifði nú. En svo góð sem verndun
íslenskrar náttúru er kemur hún aldrei í staðinn fyrir það sem fólst í annarri
heitstrengingu Fjölnismanna: „Vér viljum vernda mál vort og þjóðerni."
Nú er hætt við að einhverjir stingi við fótum. Svo kappsamlega hefur verið
unnið að því að koma óorði á allt sem hægt er að kalla „þjóðernisstefnu“, að
með ólíkindum er. Sá sem slíkt orðar má eiga von á að vera í næstu andrá
sakaður um „rasisma“ og fjandskap við útlendinga. Slíkt er þó fjarri öllu lagi.
Þjóðernið er einungis samgróið vitund okkar og okkur er ljóst að við eign-
umst aldrei annað föðurland en okkur var gefið í upphafi. Þjóðernisstefna
er að leggja rækt við þennan uppruna, þessa sjálfsmynd, án fjandskapar við
aðrar þjóðir sem við viljum og hljótum að hafa mikil samskipti við og læra af.
En við viljum ekki aðeins vera þiggjendur heldur líka veitendur í samskiptum
og samstarfi við aðrar þjóðir. Og við getum engu miðlað umheiminum nema
því sem við eigum sjálf í fórum okkar, hinni sérstæðu menningu og þeirri
vitund sem af slíku er sprottin. Þetta er heilbrigð þjóðernisstefna sem enginn
þarf að minnkast sín fyrir að aðhyllast.
„Vér viljum vernda mál vort“. Hvað felst í því? Hér eru vissulega blikur á
lofti. Það er áhyggjuefni þegar ábyrgir aðilar boða nú fullum fetum að það
eigi að gera þjóðina tvítyngda, gera ensku jafnréttháa móðurmálinu í landinu.
Þetta boðar Háskólinn í Reykjavík fullum fetum og íslenskar fjármálastofn-
anir segjast nota ensku sem „vinnumál". Svo beygðir eru íslendingar orðnir,
að ef einn útlendingur situr fund eða ráðstefnu þykir sjálfsagt að allir tali
ensku, fremur en að útvega hinum erlenda manni túlk. Verði tvítyngisstefn-
unni fylgt fram af fullu afli ber það dauðann í sér fyrir þjóðtunguna. Því ef
ensk tunga verður jafnrétthá íslensku, fyrst á háskólastiginu, síðan á lægri
skólastigum, mun næsta kynslóð að líkindum stíga skrefið til fulls og gera
ensku að opinberu máli, íslenska yrði þá „heimamál“ við eldhúsborð lands-
manna. Ef mönnum finnst slík framtíðarsýn óhæfilega dökk, þá ættu þeir að
minnast þess að þau urðu einmitt örlög ýmissa mála fámennra þjóðflokka
og sífellt eru slík tungumál að deyja víða um veröldina. Við stöndum að vísu
betur að vígi en margir aðrir vegna okkar mállegu arfleifðar. En það er ekki