Andvari - 01.01.2007, Page 16
14
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
Breiðafjarðar. í kringum þau var mikið af mennta- og listafólki sem
og eyjabændur sem margir bjuggu við góð efni. Jón Thoroddsen faðir
Skúla varð sýslumaður Barðastrandarsýslu árið 1850, þótt próflaus
væri, en það sama ár kom út fyrri skáldsaga hans Piltur og stúlka
sem fékk góðar viðtökur. Mörg ljóða hans áttu eftir að verða land-
fleyg. Það var því upprennandi skáld sem tók við sýslumannsembætt-
inu þrjátíu og tveggja ára að aldri. Jón bjó í fyrstu í Flatey en þar var
rekin öflug útgerð og verslun. í eynni bjuggu meðal annarra Ólafur
Sívertsen prestur, prófastur og þingmaður, sonur hans séra Eiríkur Kúld
sem einnig varð þingmaður og hans stórmerka kona Þuríður Kúld en
í kringum hana þróaðist mikil menningar- og listaumræða og eru af
henni margar sögur. Þá bjuggu í eynni Bogi Benedictsen kaupmaður
og kona hans Herdís sem löngu síðar stofnaði sjóð til að reisa kvenna-
skóla á Vesturlandi. Þetta var fólkið sem studdi Matthías Jochumsson
skáld til náms.8
Jón Thoroddsen fór fljótlega að leita sér að kvonfangi og ákvað að
biðja um hönd heimasætunnar í Hrappsey, Kristínar, dóttur Þorvalds
Sívertsen bónda þar og þingmanns (bróður Ólafs) og konu hans
Ragnhildar Skúladóttur. Bónorði Jóns var vel tekið en Þorvaldur var
skynsamur maður og setti það skilyrði að Jón lyki laganáminu áður en
þau gengju í hjónaband. Jón tók því, dreif sig til Kaupmannahafnar á
kostnað Þorvalds, las af kappi og lauk prófinu. Með þessu hjónabandi
tengdist Jón fólki sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf barna hans og
barnabarna. Þau hjón fluttu síðar að Haga á Barðaströnd og eftir að Jóni
var veitt Borgarfjarðarsýsla bjuggu þau að höfuðbólinu Leirá.9
Systkini Kristínar Þorvaldsdóttur Sívertsen voru þau Katrín og Skúli.
Katrín missti fyrri mann sinn en síðari maður hennar var Jón Arnason
þjóðsagnasafnari. Þau hjón bjuggu í Reykjavík og voru örlagavaldar
í sögu fjölskyldunnar. Skúli bróðir Kristínar varð bóndi í Hrappsey
en dóttir hans var Katrín Skúladóttir Magnússon kvenréttindakona,
formaður Hins íslenska kvenfélags um árabil og ein þeirra fjögurra
kvenna sem kjörnar voru í bæjarstjórn Reykjavíkur af kvennalista árið
1908. Hún kom iðulega í heimsókn til þeirra Skúla og Theodoru eftir
að þau fluttu til Reykjavíkur og var því ein af þeim forystukonum
sem Katrín Thoroddsen hafði fyrir augum í æsku.10 Ættingjar Skúla
Thoroddsen voru margir á kafi í sjálfstæðisbaráttunni, þeir studdu Jón
Sigurðsson og nokkrir karlanna sátu um árabil á þingi.11
Þau Jón Thoroddsen og Kristín Þorvaldsdóttir komu fjórum drengj-