Andvari - 01.01.2007, Page 19
ANDVARI
KATRÍN THORODDSEN
17
þykkti að veita honum 5000 kr. í skaðabætur vegna alls þess miska sem
hann hafði orðið fyrir. Þóttu það skýr skilaboð til þáverandi landshöfð-
ingja Magnúsar Stephensen sem farið hafði offari gegn Skúla. Skúli
stóð uppi sem sigurvegari en hann fékk embætti sitt ekki til baka.23
Eftir þetta lifði fjölskyldan á verslunarrekstri, búskap og blaðaútgáfu
auk þess sem aðrar eignir gáfu af sér.
A heimili þeirra Skúla og Theodoru var Guðbjörg Jafetsdóttir (1854-
1944), jafnan kölluð Bauja. Hún kom til þeirra haustið 1884 og átti að
vera þeim til aðstoðar meðan þau væru að koma sér fyrir á ísafirði. Hún
fór hvergi og fylgdi fjölskyldunni til dauðadags. Hún varð fóstra sumra
barnanna, þar á meðal Katrínar og Sigurðar. Þau voru Baujubörn.24
Að sögn Sigurðar voru þau Skúli og Theodora sterkefnuð sem sést
best á því að þau keyptu stórjörðina Bessastaði og fleiri jarðir á Álfta-
nesi árið 1899 og ráku þar stórbú. Þau byggðu síðan stórt og myndarlegt
íbúðarhús í Reykjavík, jafnhliða því að eiga eignir á Vestfjörðum og
Vesturlandi þar á meðal Klakkeyjar á Breiðafirði.25
Flest barna þeirra Skúla og Theodoru fæddust á ísafirði þar sem þau
voru búsett frá 1884-1901 er þau fluttu til Bessastaða en elstu börnin
fluttu þangað á undan þeim. Sigurður verkfræðingur, næstyngsti bróðir
Katrínar, sem fæddist á Bessastöðum 1902 segir frá því að eldri systkinin
hafi strítt þeim yngri á því að þau væru bara Álftnesingar, sem var nú
eitthvað annað en Isfirðingar.26
Katrín var fimm ára27 þegar hún flutti til Bessastaða og ef marka má
lýsingar Sigurðar bróður hennar hefur dvölin þar verið mikil sæluvist
fyrir börnin. Umhverfið bauð upp á endalausa leiki og þá var húsið
stóra, prentsmiðjan og kirkjan ekki síðri leikvöllur. Bessastaðir voru
stór jörð og margt fólk í heimili. Auk fjölskyldunnar og vinnufólks
bjuggu þar prentarar sem unnu við útgáfu Þjóðviljans og þangað voru
ráðnir skólapiltar til að kenna börnunum en þeir voru jafnframt að lesa
undir stúdentspróf. Þetta voru gjarnan skyldmenni eða synir vinafólks
þeirra hjóna.28
I Vonarstrœti 12
Árið 1908, það viðburðarríka ár, flutti fjölskyldan til Reykjavíkur en
þá um sumarið varð Katrín 12 ára. Skúli og Theodora höfðu byggt sér
reisulegt hús við nýja götu við norðurenda Tjarnarinnar sem kölluð var