Andvari - 01.01.2007, Page 30
28
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
barnadauði meðal óskilgetinna barna hafi lækkað á árunum 1920-1925
úr 111,5 af þúsundi í 63,5 af þúsundi. Á sama tíma lækkaði barnadauði
meðal skilgetinna barna úr 62,5 af þúsundi í 50,6.76 Þetta eru feikna háar
tölur miðað við það sem nú gerist hér á landi. Það var mikill munur á
kjörum barna eftir því hvort þau voru skilgetin eða óskilgetin og á því
vildu kvennasamtökin taka, þar á meðal Hjúkrunarfélagið Líkn. Katrín
Thoroddsen lét ekki sitt eftir liggja í þeirri baráttu.
Meðfram öðrum störfum rak Katrín ljóslækningastofu ásamt Unni
systur sinni að Laugavegi ll.77 Á þriðja áratugnum fór áhugi lækna á
ljóslækningum stöðugt vaxandi en þær höfðu tíðkast um skeið. Katrín
segir frá því í minningargrein um Kristínu systur sína að hún hafi
unnið á röntgen- og ljóslækningastofu eftir að hún kom heim úr námi
1918 þannig að þær lækningar voru þá þegar tíðkaðar.78 Ljóslækningar
voru taldar gagnlegar í baráttunni við berkla, beinkröm, næringarskort,
of mikla inniveru og slappleika. Árið 1925 skrifaði Páll Kolka hér-
aðslæknir í Vestmannaeyjum grein í Læknablaðið um ljóslækningar.
Hann byrjaði á því að fjalla um lækningar með últrafjólubláum ljósum
en hann var þó fyrst og fremst að kynna notkun rauðra geisla sem
taldir voru mjög góðir við meðferð húðsjúkdóma og gegn bólgum. Til
samanburðar þóttu últrafjólubláir geislar duga vel gegn beinkröm og
kirtlabólgum. Páll lagði til að læknar gerðu tilraunir með að blanda
saman þessum tveimur geislategundum.79 Ekki hafa fundist heimildir
um hvers kyns ljósum var beitt á stofu þeirra Unnar og Katrínar.
Margir hafa sögur að segja af Katrínu sem heimilislækni. Móðir
greinarhöfundar man eftir því þegar hún lagðist í brjósthimnubólgu
árið 1928 fjögurra ára gömul. Kallað var á Katrínu sem eftir það kom
og vitjaði litla sjúklingsins á hverjum einasta degi þar til stúlkan reis
úr rekkju. Valgerður Gísladóttir rifjaði upp í tímaritsgrein þegar dóttir
hennar varð fárveik árið 1933 og var kallað á Katrínu. Hún greindi
sjúkdóminn sem heilasjúkdóm [heilahimnubólgu] en til að vera viss
lét hún kalla á fleiri lækna þar á meðal Helga Tómasson geðlækni sem
Katrín sagði sérfræðing í heilasjúkdómum. Helgi var sammála grein-
ingu Katrínar og komu þau sér saman um lyfjagjöf og næringu. Meðan
á veikindunum stóð sem voru mjög alvarleg vitjaði Katrín stúlkunnar
þrisvar á dag, jafnvel fjórum sinnum meðan veikindin voru hvað verst
og það átti að kalla á hana að nóttu sem degi yrði einhver breyting á.
Það varð mikil gleði þegar stúlkunni fór að batna og beið hún minni
skaða af en ætlað var en missti heyrn á öðru eyra.80