Andvari - 01.01.2007, Page 31
ANDVARI
KATRÍN THORODDSEN
29
Frjálsar ástir og kynfrelsi kvenna
Víkur þá sögunni að umræðum um takmarkanir barneigna, frjálsar
ástir og fræðslu um kynlíf, það sem í dag er kallað kynheilbrigði en þar
gerðist Katrín mikill brautryðjandi. Hér verður sjónum einkum beint að
umræðum innan kvennahreyfinga og verkalýðshreyfingarinnar en þessar
tvær hreyfingar tengjast báðar lífi og starfi Katrínar Thoroddsen.
Frá því um miðja 19. öld voru umræður um kynfrelsi kvenna og karla
eitt af því sem einkenndi bæði kvenna- og verkalýðshreyfinguna. Var sú
umræða jafnan kennd við frjálsar ástir. Meðal femínista tókust á frels-
issjónarmið, þ.e. konur áttu að hafa frelsi til kynlífs utan hjónabands rétt
eins og karlar, og hins vegar siðferðissjónarmið þeirra sem vildu halda
kynlífi innan hjónabands og gera sömu ströngu siðferðiskröfur til karla
og kvenna. Þar hafði vaxandi vændi og útbreiðsla kynsjúkdóma mikil
áhrif.81
Innan verkalýðshreyfingarinnar tókust annars vegar á íhaldssöm
sjónarmið sem byggðust á því að karlinn væri höfuð fjölskyldunnar sem
ætti að sjá henni farborða meðan konan sæi um börn og bú, allt innan
löglegs hjónabands. Það átti ekki að breytast í ríki sósíalismans. Hins
vegar voru þeir sem lögðu áherslu á jafnræði og frjálsar ástir, sögðu
hjónabandið borgaralega kúgunarstofnun og einkvæni til orðið til að
karlar gætu ráðið yfir konum. Samband karls og konu yrði allt öðru vísi
í ríki sósíalismans. Má í þessu sambandi benda á skrif rithöfundarins
og baráttukonunnar Aleksöndru Kollontaj sem velti hjónabandinu mikið
fyrir sér en hún varð fyrst kvenna ráðherra í Sovétríkjunum.82 Friedrich
Engels, einn frægasti heimspekingur sósíalismans, bjó í óvígðri sambúð
þar til rétt áður en hann dó.83
Undir lok 19. aldar tók að draga verulega úr fæðingatíðni víða í
Evrópu og Bandaríkjunum og hélt sú þróun áfram á 20. öld, nema
á tímabilinu 1940-1960 þegar hið svokallaða „baby-boom“ átti sér
stað.84
Lækkandi fæðingatíðni hafði mikil áhrif á umræður um kynfrelsi
og kynlíf. Þegar líða tók á 19. öld fóru þær að snúast æ meira um
afleiðingar kynlífs, takmarkanir barneigna og getnaðarvarnir. Innan
femíniskra hreyfinga nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu voru
skoðanir jafn skiptar á réttmæti þess að takmarka barneignir og beita
getnaðarvörnum eins og um kynfrelsi að öðru leyti.
Sumir femínistar töldu að takmarkanir barneigna myndu auka