Andvari - 01.01.2007, Síða 35
andvari
KATRÍN THORODDSEN
33
eigi konuna, mótbára sem hverfur með vaxandi menntun og þroska og kannske
hvað helzt með auknu fjárhagslegu sjálfstæði kvenna.95
Þarna talaði femínistinn Katrín sem sá takmarkanir barneigna sem leið
til aukins jafnréttis kynjanna og sem leið til betri heilsu og lífskjara.
Yfirrád yfir eigin líkama
Katrín fræddi fólk um kynfæri kvenna og karla, egglos og möguleika á
frjóvgun. Meðal annars varaði hún við trú á örugg tímabil. Eina öryggið
fælist í því að nota getnaðarvarnir. Hún ræddi um forneskjuleg lög um
fóstureyðingar, þeim þyrfti að breyta þannig að tekið væri tillit til heilsu
móður eða ef nauðgun hefði átt sér stað. Hún sagði: „persónulega hef
ég óbeit á þeim [fóstureyðingum], en hins vegar get ég ekki neitað, að
mér finnst, að konan, móðirin, eigi að vera rétthærri en þetta samsafn
af frumum, sem um síðir verður kannske lifandi vera.“96 Röksemdir
Katrínar minna mjög á umræðuna sem fram fór á árunum 1973-1975
er miklar deilur urðu vegna frumvarps til laga um fóstureyðingar og
fræðslu um takmarkanir barneigna.97
Katrín fjallaði um smokkinn og var lítt hrifin af honum, bæði vegna
þess að hann var dýr en þó fyrst og fremst vegna þess að með notkun
hans var valdið karla megin:
En vitanlega er það eðlilegast og réttmætast, að konan hafi ákvörðunarréttinn.
Hún á mest á hættunni. Það er hún sem setur heilsu sína og jafnvel líf í hættu
um meðgöngutímann og við fæðinguna, og það er hún, sem er bundin yfir
barninu á eftir og það er hún, að minnsta kosti þegar um óskilgetin börn er að
ræða, sem verður aðallega að vinna fyrir því.98
Katrín notaði tækifærið og gagnrýndi hið skammarlega lága meðlag
með börnum og sendi karlmönnum tóninn: „megnið af karlmönnum
virðist algerlega skorta ábyrgðartilfinningu gagnvart afkvæmum sínum,
sem þeir ekki eru samvistum við.“99
Sú aðferð sem Katrín mælti með var notkun hettunnar og sæðisdrep-
andi krem með. Alls konar tröllasögur væru í gangi um hettuna, sagði
hún, til að mynda að hún gæti borist inn í líkamann, alla leið upp í
botnlanga og valdið bólgum en slíkt væri fásinna. Það þyrfti að koma á
fót ráðleggingastöð fyrir konur, ekki síst fátækum konum til stuðnings.