Andvari - 01.01.2007, Síða 42
40
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
Þetta er athyglisvert sjónarmið í ljósi þess að það var ekki fyrr en
tæpum tuttugu árum síðar sem umræða um ófullnægju kvenna braust út
fyrir alvöru í kjölfar bókar Betty Friedan The Feminine Mystique sem
kom út í Bandaríkjunum 1963.121
Katrín greip til gamalkunnra raka í þessari grein, þeirra að það gift-
ust ekki allar konur og þar af leiðandi yrðu þær að geta séð fyrir sér.
Hún skýrði lága tölu kvenna í framhaldsnámi með því að þær fengju
ekki hvatningu og að foreldrar væru ekki að fjárfesta í menntun dætra
sinna ef hún kæmi ekki að notum. Þá ræddi hún um það launamisrétti
sem konur sættu, ekki væri það hvetjandi, karlar tímdu ekki einu sinni
að borga konum meðlag með börnum sínum. Katrín benti á að stjórn
karlmanna á heiminum hefði ekki aldeilis verið til sóma, hún hefði
beinst að því að halda almenningi í skefjum. Þau rök stæðust ekki
að karlar væru konum færari í þeim málum. Þá minnti hún að lokum
á tillögu um að reisa vændishús fyrir „aðþrengda karlmenn“ (blíðu-
söluskála) og aðra um að flytja ungar stúlkur út úr bænum til að forða
þeim úr sollinum og setja bersyndugar konur í tugthúsið. Hvorugum
tillögumanni hefði dottið í hug að bæta kjör og stöðu kvenna. Katrín
hafði margt að athuga við hegðun karlmanna og hvatti konur til
dáða:
Konur góðar, finnst ykkur ekki tími til kominn, að gera hreint á þjóðarheimilinu
og bæta heimilisbraginn, einmitt í sambandi við hið endurheimta fullveldi
landsins? Viljið þið ekki lofa alfrjálsu íslandi að njóta góðs af stjórnsemi
ykkar, iðjusemi, hirðusemi, hagsýni, nýtni og útsjónarsemi. Viljið þið ekki taka
saman höndum við karlmennina og vinna að því sem jafningjar þeirra og góðir
félagar, að gera fegursta land heimsins að því farsælasta. Það verður kannski
erfitt, en með góðum vilja og aðstoð sósíalismans er það vel kleift.122
Þessi orðræða minnir um margt á áherslur Kvennalistans á níunda
áratugnum og má þar t.d. minna á kosningaspjald sem á stóð: „Hárrétt
stelpur, gerum hreint í borgarstjórn“.123 Katrín taldi konur hafa margt
gott fram að færa og hún hafði trú á þeim þrátt fyrir að þær nýttu
réttindi sín illa. Sýn Katrínar á stöðu kvenna í „fegursta landi heimsins“
var býsna skörp og vísar til nútímans en það var sósíalisminn sem átti
að skapa konum farsæld.
Þetta sama ár flutti Katrín langa og athyglisverða ræðu á fjár-
öflunarsamkomu Hringsins sem haldin var úti undir beru lofti í
Hljómskálagarðinum 8. júlí. Þar talaði barnalæknirinn Katrín. Þrjár