Andvari - 01.01.2007, Page 50
48
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
íslendingar, ég sver það við minningu föður míns Skúla Thoroddsens og
allt sem mér er heilagt, að sá áburður andstæðinganna, að við sósíalistar
látum stjórnast af erlendum mönnum er ósannindi, lygi, sem enga stoð á í
veruleikanum, og því er ykkur óhætt að kjósa C-listann.156
Enn var hún að reyna að skera á Moskvulínuna sem andstæðingar
sósíalista minntu ætíð á fyrir hverjar kosningar. Þessa svardaga gerði
Alþýöublaöiö að umtalsefni og spurði hvað hún vissi um sambönd
flokksforingjanna Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar. Hún
gæti svarið fyrir sjálfa sig en ekki aðra.157 Alþýöublaöiö eyddi töluverðu
púðri á Katrínu, birti af henni skopmynd og benti á að hún hefði
steinþagað þegar hún sat á þingi fyrir Einar Olgeirsson 1945. Það sýndi
að í raun hefði hún engan áhuga á réttindamálum kvenna. Hún ætti bara
að halda sig við að lækna. Alþýðuflokkurinn sá Katrínu sem ógnun og
lagði áherslu á að listar hans væru listar kvenþjóðarinnar. í fyrrnefndum
útvarpsumræðum talaði Soffía Ingvarsdóttir fyrir flokkinn en hún
var í 5. sæti hans í Reykjavík. Ræða hennar snerist ekki síst um stöðu
kvenna.158 Konur voru því í sviðsljósinu í kosningunum 1946 og það var
slegist um atkvæði þeirra, í það minnsta á vinstri vængnum.
Kosningadagurinn rann upp 30. júní og þegar ljóst varð að Katrín
hafði náð kjöri varð mikill fögnuður í herbúðum sósíalista. Sósíalistar
fengu 19,5% atkvæða og 10 þingmenn. Sigurður bróðir Katrínar náði
ekki endurkjöri 1946 þannig að segja má að þau systkinin hafi skipt
um hlutverk.
Þridja konan á þingi
Þegar Katrín settist á þing var hin svokallaða nýsköpunarstjórn enn
við völd sem var ríkisstjórn hluta Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks
og Sósíalistaflokks en hún var mynduð árið 1944, skömmu eftir að
Island varð lýðveldi. Það var í fyrsta sinn sem sósíalistar komu að
stjórn landsins. Katrín tilheyrði stjórnarmeirihlutanum fyrstu mánuði
þingsetu sinnar og var kjörin annar varaforseti Sameinaðs þings þótt
nýr þingmaður væri. Fljótlega dró til mikilla tíðinda vegna deilna um
Keflavíkursamninginn en árið áður hafði beiðni Bandaríkjastjórnar um
herstöðvar til 99 ára verið hafnað. Nú átti að gera samning um afnot
Bandaríkjamanna af Keflavíkurflugvelli. Sósíalistar voru alfarið á