Andvari - 01.01.2007, Page 51
andvari
KATRÍN THORODDSEN
49
móti slíkum samningum og sprakk ríkisstjórnin á því máli 10. okt. 1946
en sat áfram við völd til 4. febrúar 1947, vegna þess hve illa gekk að
mynda nýja stjórn.159 Eftir að hún var mynduð var Katrín í stjórnarand-
stöðu.
Katrín Thoroddsen var þriðja konan sem tók sæti á Alþingi Islend-
inga. Á undan henni komu Ingibjörg H. Bjarnason 1922-1930 og
Guðrún Lárusdóttir 1930-1938. Ingibjörg var kjörin sem fulltrúi
kvennalista en gekk fljótlega til liðs við Ihaldsflokkinn, síðar Sjálf-
stæðisflokkinn. Guðrún Lárusdóttir var þingkona Sjálfstæðisflokksins
en gaf reyndar út sína eigin stefnuskrá.160 Ingibjörg og Guðrún tengdust
báðar kvennahreyfingunni en komu úr ólíkum áttum. Þótt báðar hafi
tilheyrt borgaraöflunum, voru þær mjög ólíkar og á öndverðum meiði
1 afstöðu til hlutverks kvenna í samfélaginu.161 Katrín Thoroddsen var
einnig nátengd kvennahreyfingunni en kom úr röðum sósíalista. Það
er því afar athyglisvert að sjá hve sterkur þráður tengdi þessar þrjár
konur þegar kom að þeim málefnum sem þær báru fyrir brjósti sem
þingkonur. Málefni kvenna og barna voru þar langefst á blaði, stuðn-
ingur við kvennasamtök, heilbrigðismál og hagur þeirra sem verst stóðu
að vígi. Að því leyti tengdust þær í hugmyndum sem kenndar hafa verið
við velferðarfemínisma.162
Katrín flutti jómfrúarræðu sína í útvarpsumræðum um Kefla-
víkursamninginn 5. október 1946, aðeins fimm dögum áður en stjórnin
sprakk. Vart þarf að taka fram að hún talaði gegn samningnum og
sagði þingmenn vera að taka sér vald sem ekki væri þeirra.163
Fyrstu tillögurnar sem Katrín lagði fram tengdust fjárlögum ársins
1947 en hún lagði til að styrkur til Kvenréttindafélagsins yrði hækk-
aður úr 15 þús. kr. í 30 þús. í sömu ræðu komu þekking og áhugamál
læknisins vel fram er hún ræddi um nauðsyn byggingar farsóttasjúkra-
húss og stækkun ríkisspítalanna en að mati nefndar sem hafði verið
að störfum vantaði 300-400 rúm til að fullnægja þörfinni.164 Aðeins
16 ár voru liðin frá því að óskabarn íslenskra kvennahreyfinga -
Landspítalinn - tók til starfa en kvennasamtök landsins söfnuðu miklu
fé til hans. Þegar Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins lagði fram
teikningar að Landspítalanum sögðu menn í skammsýni sinni: Þetta
er allt of stór og dýr bygging, og var honum gert að skera hana niður
unt þriðjung. Það liðu ekki mörg ár þar til spítalinn var yfirfullur, sem
bitnaði meðal annars á þjónustu við fæðandi konur en Katrín átti eftir
að beita sér í því máli þegar unnið var að opnun nýrrar fæðingardeildar.