Andvari - 01.01.2007, Page 58
56
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
Málshöfðunarbeiðni þeirra tel ég því ástæðulausa þeirra vegna, og sé rógur
sá, ósannindi og baknag, er þeir hafa orðið fyrir af hálfu hv. þm., borið saman
við illgerðir hans gagnvart öllum landslýð, er málshöfðunarleyfið óneitanlega
hégómlegt hismi.184
Hún bætti því við að hætt væri við að slíkt fordæmi yrði misnotað í
framtíðinni og því hafnaði hún tillögunni. Ekki er ólíklegt að sósíalistar
hafi óttast að samþykkt tillögunnar ætti eftir að hitta þá sjálfa fyrir
síðar meir. Olafur brást við skýringum Katrínar og sagði:
Ég tek mjög nærri mér, ef ég hef meitt viðkvæma sómatilfinningu okkar
orðvöru og óvenju prúðu ungfrúar, en það er þá líka hið eina hryggðarefni sem
orðið hefur á mínum vegi, meðan á þessum fróðlegu og sérstæðu umræðum
hefur staðið.185
Orð Olafs verða ekki skilin öðru vísi en sem háð, því Katrín hafði hvorki
verið orðvör né prúð í umræðunni. Þá fólst vottur af kvenfyrirlitningu í
orðum Olafs er hann kallaði Katrínu ungfrú en hún var á 52. ári þegar
hér var komið sögu. Þessi orðaskipti þeirra Katrínar og Ólafs sýna
glöggt hve mikil harka var í umræðunni. Tillagan var felld og því kom
ekki til málshöfðunar.
Katrín víkur fyrir Brynjólfi
Haustið 1949 var boðað til kosninga vegna ágreinings þáverandi stjórn-
arflokka um dýrtíðarráðstafanir en miklir erfiðleikar voru í rekstri
þjóðarbúsins.186 Nú urðu þau tíðindi í flokki sósíalista í Reykjavík að
Katrín færðist niður um sæti á framboðslistanum. Brynjólfur Bjarnason
tók aftur sæti á listanum. Að þessu sinni voru fjórar konur í framboði.187
A fundi þar sem listinn var samþykktur flutti Katrín ávarp þar sem hún
sagðist sjálf hafa valið að færa sig niður um eitt sæti: „Ég valdi mér
þetta sæti af ráðnum hug. Ég gerði það af því að Sósíalistaflokkurinn er
vaxandi flokkur. Ég er viss um að val mitt er rétt og að reynslan á eftir
að sýna það á kjördegi.“188 Það átti að gera fimmta sætið að baráttusæti
að sögn Katrínar. Sósíalistar voru áreiðanlega bjartsýnir eftir mikil átök
um aðildina að NATO og héldu að þeim yrði þakkað með auknu fylgi
en heldur eru þessi rök ósannfærandi. Af hverju var það Katrín sem vék?
Var engin önnur leið til að tryggja Brynjólfi þingsæti? Hvers vegna var