Andvari - 01.01.2007, Side 146
144
EYSTEINN ÞORVALDSSON
ANDVARI
Sigurður Júlíus Jóhannesson notar líka smölunar-mótífið í kvæðinu „Böl-
sýnismaðurinn“8 en þar virðist hann ræða við einhvern heittrúaðan prest:
Þú helst vildir brenna hvern „bölsýnismann",
sem blett eða hrukku á heiminum fann
og raskaði ró þeirra kinda,
sem þú hefur hundreknar hneppt inn í kró
og haldið í myrkri uns ljósþráin dó
og unnt var þær allar að binda.
Kirkjuveldið
Þar sem kirkjan vestanhafs var óháð ríkisvaldinu varð hún valdsæknari og
herskárri en á íslandi; þar dormaði þjóðkirkjan í venjubundinni værð undir
verndarvæng ríkisins. Islenska lúterskirkjan vestanhafs vildi byggja upp og
treysta veldi sitt því að þar var ekki ríkisvald við að styðjast. Hinir vantrúuðu
gerðu sér líka að sjálfsögðu fljótt grein fyrir því að þarna höfðu þeir frelsi til
að gagnrýna, óhlýðnast og einnig að afneita þessari stofnun sem seildist til
andlegra yfirráða. Það var því engin furða að þarna yrðu hugmyndafræðileg
átök. Þorsteinn Þ. Þorsteinsson skrifar í bók sinni Vestmönnum:9
Þrátt fyrir margvíslegt og á mörgum sviðum mjög lofsvert „íslenskt“ starf trúmála
og kirkjumála meðal Islendinga á Vesturvegum, þá olli starfsaðferð þeirra megnum
þrengslum, miklum kyrkingi og jafnvel andlegum dauða margra góðra drengja og
víðsýnna skoðana, sem aldrei gátu átt samleið með kirkjufeðrum og safnaðarstólpum,
og urðu svo blátt áfram úti í íslenskum skilningi, hjá ráðríkum vald-ölvuðum
guðsmönnum og trúhræddri samtíð og prestsjúkri. ...
íslendingar í Vesturheimi mynda smátt og smátt voldugt ríki sín á meðal: kirkjuveldið.
Oft hefur ríki þetta verið sjálfu sér sundurþykkt, því að ofsatrúarmenn, villutrúarmenn
og bersyndugir smíðuðu kirkjur utan um sig engu síður en rétttrúnaðurinn. En þrátt
fyrir megnar skærur og miklar deilur milli þeirra, og hárreytingar um völdin innan
hverrar kirkjudeildar, hafa þær allar amast ævinlega langmest við þeim, sem enga þeirra
gátu aðhyllst og stóðu því utan flokka.
Lokaorðin í þessum tilvitnaða kafla í bók Þorsteins sönnuðust á viðbrögðum
kirkjuveldisins þegar ungir Vestur-íslendingar stofnuðu Menningarfélagið í
Norður-Dakota árið 1888. Þeir voru þó ekki allir utan kirkjusafnaða. Félagið
hafði á stefnuskrá sinni að „styðja og útbreiða menning og siðferði, það sið-
ferði og þá trú sem byggð er á reynslu, þekking og vísindum. í staðinn fyrir
kirkjulegan flokkadrátt vill það efla mannúð og bræðralag; í staðinn fyrir
íhugunarlausa játning, skynsamlega og óhindraða rannsókn, í staðinn fyrir
blinda trú, sjálfstæða sannfæring, og í staðinn fyrir heimsku og hleypidóma,
andlegt frelsi og framför, sem engar hömlur séu lagðar á.“10