Andvari - 01.01.2007, Side 165
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
Fátækt og ójöfnuður
af sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar
Þegar skoski heimspekingurinn Adam Smith gaf Auölegð þjóðanna út 1776,
braut hann blað í hugmyndasögunni. Áður höfðu menn sætt sig við, að fátækt
væri óhjákvæmilegt hlutskipti þorra fólks. Nú sýndi Smith fram á, að þjóðir
gætu orðið ríkar, nýttu þær kosti verkaskiptingarinnar, en til þess þyrftu þær
að stunda frjáls viðskipti. Fátæktin, sem áður var regla, átti að geta orðið
undantekning. Kapítalisminn var kominn til sögu, kerfi atvinnufrelsis og fjár-
magns í höndum einkaaðila. Þýski heimspekingurinn Georg W. F. Hegel varð
einna fyrstur til að bregðast við þessum nýju viðhorfum. Hann greindi fátækt
sem úrlausnarefni, ekki sem eðlilegt ástand. í huga Hegels varð fátækt ekki
skortur efnislegra gæða, örbirgð, eins og hún hafði áður verið talin, heldur
andstæða við auðlegð. Vandinn var ekki, að því er Hegel taldi, að fátæklingar
byggju við verri kjör en áður, heldur að kjör þeirra virtust miklu verri í sam-
anburði við síbatnandi kjör annarra stétta. Hegel hafði áhyggjur af því, að
fátæklingar fylltust þvf beiskju og hegðuðu sér ekki eins og fullgildir borgarar
innan skipulagsins. Þeir yrðu firrtir, eins og Hegel orðaði það og marxistar
á eftir honum. Þetta nútímalega fátæktarhugtak Hegels, andstæða auðlegðar
fremur en skortur efnislegra gæða, er náskylt tekjuskiptingarhugtaki nútíma-
manna. Bandaríski heimspekingurinn John Rawls telur það skipulag réttlátt,
þar sem ójöfn skipting gæða helgist af því einu, að kjör hinna verst settu séu
eins góð og þau geta orðið. Aðalatriðið sé því ekki sem minnstur tekjumun-
ur ríkra og fátækra, heldur sem best lífskjör hinna fátækustu, aðgangur
þeirra að frumgæðum til jafns við aðra. Þar sé jöfnuður. Hafa forystumenn
íslenska jafnaðarmannaflokksins, Samfylkingarinnar, óspart gert orð Rawls
að sínum.1 Hér skal gerð nokkur grein fyrir fátækt og ójöfnuði af sjónarhóli
stjórnmálaheimspekinnar, sérstaklega í hugsun þeirra Hegels og Rawls, en
reynt að tengja umræðuna við íslenskan veruleika, eins og hann er í upphafi
tuttugustu og fyrstu aldar. Bent verður á það, sem Adam Smith hélt fram og
reynslan sýnir líka, að almenn lífskjör batna við aukið atvinnufrelsi, ekki síst
kjör fátæks fólks. íslendingar hafa hin síðari ár farið aðra leið en tvær grann-
þjóðir, Svíar og Bandaríkjamenn. Þeir hafa gengið skemur í velferðaraðstoð