Andvari - 01.01.2007, Page 174
172
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
asta fjórðungnum voru árið 2004 að meðaltali 6.519 Bandaríkjadalir á mann
á ári, í næstfrjálsasta fjórðungnum 2.322 dalir, í næstófrjálsasta fjórðungnum
1.186 dalir og í hinum ófrjálsasta 826 dalir. Þetta sést á 2. mynd. Kjör hinna
verst settu eru að jafnaði greinilega langbest í þeim löndum, sem búa við mest
atvinnufrelsi. Það er síðan rétt, að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman.
Þegar ýmsar aðrar stærðir eru metnar, til dæmis vísitala þroskaskilyrða (e.
human development index), sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett saman, lífslík-
ur við fæðingu, barnadauði og aðgangur að hreinsuðu vatni, eru niðurstöður
hinar sömu: Þessi skilyrði eru því betri sem atvinnufrelsi er víðtækara.18 Þá
almennu ályktun virðist unnt að draga af þessari mælingu, að hinir verst settu
séu best settir í þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi er að minnsta kosti víð-
tækt. Frjálst hagkerfi í víðum skilningi stenst prófstein Rawls. En með því er
ekki öll sagan sögð: Frjálst hagkerfi, kapítalismi, er til í ýmsum tilbrigðum.
Sœnska leiðin og hin bandaríska
Margt er ólíkt í þeim löndum, sem mynda frjálsasta fjórðung heims í atvinnu-
málum. Þar eru Bandaríkin, þar sem tekjuskipting er ójöfn og velferðarþjón-
usta takmörkuð, og Svíþjóð, þar sem tekjuskipting er jöfn og velferðarríkið
styður fólk frá vöggu til grafar. Hvort landið stenst betur prófstein Rawls?
Ef velja á milli tveggja landa, þar sem kjör hinna verst settu eru svipuð, en
tekjuskipting jafnari í öðru, þá myndi Rawls vissulega taka það fram yfir
hitt. Hlýtur hann þá ekki að velja Svíþjóð? Það er óvíst. Tekjuskipting er þar
jafnari en í Bandaríkjunum og afkomuöryggi verst setta hópsins sennilega
betur tryggt, en tekjur hinna verst settu (tekjulægsta hópsins) eru þó svipaðar
og jafnvel aðeins lægri en tekjur sambærilegs hóps í Bandaríkjunum.19 Málið
er ekki einfalt. Tækifæri til að komast úr fátækt eru fleiri í Bandaríkjunum,
þótt auðveldara sé að vera fátækur í Svíþjóð. Hvort eru menn betur settir
með fleiri tækifæri eða rausnarlegri aðstoð? Tekjuskipting mælist ójafnari í
Bandaríkjunum en Svíþjóð, en það á ekki aðeins rót sína í því, að þar vestra
eru fleiri auðmenn til, heldur líka hinu, að íbúar landsins eru ólíkt Svíum afar
sundurleitir, eftir kynþáttum, landsvæðum, uppruna og menntun. Bandaríkin
hafa löngum verið land innflytjenda, sem koma fátækir þangað, en fullir
starfslöngunar, og efnast fljótt. Þegar ójöfn tekjuskipting er skoðuð, verður að
huga að hreyfanleika manna milli tekjuhópa, sem er mikill þar vestra. Litlar
áhyggjur þarf að hafa af fátækt innflytjenda, námsmanna eða stofnenda nýrra
smáfyrirtækja: Hún er tímabundin. Arið 1959 voru 22% Bandaríkjamanna
neðan fátæktarmarka þess árs; árið 2004 voru 12% þeirra neðan fátæktar-
marka þess árs. Bandarískur vinnumarkaður er enn fremur sveigjanlegri
en í Evrópu og atvinnuleysi minna, svo að þeir, sem vilja vinna, geta það.