Skírnir - 01.01.1922, Blaðsíða 176
168 Um Friðrik Vilhjálm I. Prússakonung. [Skirnir
allur fasti prússneski herinn málaher, svo sem tíðkaðist í
flestum ríkjum álfunnar um þær mundir. Gústav Adolf
mun hafa verið hinn fyrsti þjóðhöfðingi á síðari öldum,
sem ljet sjer koma til hugar, að kveðja upp þjóðher með
bændaútboði, og náði þó ekki útboðið til allra vopnfærra
manna (svo og svo margir jarðeigendur áttu að gera út
einn fótgönguliðsmann í fjelagi). En eftir hans dag var horf-
ið frá þessu ráði í Svíþjóð, og síðan engin viðlíka tilraun
gerð í neinu ríki fyr en Fr. V. kemur til sögunnar. Lönd
hans voru dreifð og sundurlaus og því ófriðar von
úr öllum áttum, svo að þessu unga, fátæka ríki var ann-
aðhvort að gera, að hafa meiri landvarnir en nokkurt
annað ríki hlutfallslega, eða að íáta alt reka á reiðanum
og eiga alt upp á von og óvon Fr. V. sá, að ríkissjóður
Prússlands var altof fátækur til þess, að halda slíkan
málaher, sem nauðsyn krafði. Þess vegna gaf hann út
hið merkilega og örlagaþunga lagaboð um herskyldu
allra prússneskra þegna (1733). Þar er í fyrsta sinn
kveðið upp úr með það nýmæli, að hver þegn rikisins
sje *fæddur til vopnaburðar* En þrátt fyrir járnvilja
konungs varð sú lagagrein aldrei framkvæmd til fulls
um hans daga, til þess var mótþróinn gegn þessari fá-
heyrðu nýjung alt of ákafur og almennur. En þó komst
Fr. V. það áleiðis, að venjulega var helmingur hersins
útboðslið. Hinn helmingurinn var málalið, sem dregið var
saman hvaðanæva að, en þó mestmegnis úr Þýskalandi.
Prússland var um þær mundir 13. ríki álfunnar að fólks-
fjölda og hið 10. að flatarmáli, en að eins Rússland, Frakk-
land og Austurríki höfðu stærri heri. Aldrei mun svo
fáment ríki hafa haft svo fjölmennan her, en hitt var þó
enn þá furðulegra, hvernig þessi her var æfður og út-
búinn. Heræfingar á Prússlandi voru hafðar að undri og
athlægi um alla Evrópu. Seint og snemma voru haldnar
hergöngur og hersýningar, og á hverjum degi leit kon-
ungur yfir hersveitirnar og athugaði alt með óþreytandi
árvekni og nákvæmri smásmygli. Herlögin voru hræði-
lega Btröng og refsingarnar ruddalegar. En tilganginum