Eimreiðin - 01.07.1958, Qupperneq 71
EIMREIÐIN
203
úr rennunni á húshorninu. Ég lít til lofts og sé svarta og
skörðótta skýjafleka svamla til vesturs.
Ég snarast inn og skelli aftur hurðinni, fer inn í mið-
stöðvarklefann og kveiki upp, þvæ mér síðan og raka mig.
Því næst fer ég fram í ganginn og lít á brúsana. Annar þeirra
er fullur, en hinn næstum tómur. Ég hlusta á dyn regnsins
og segi síðan við sjálfan mig:
„Þú ferð ekkert að gaufa við þetta núna. Hann er ekki á
þeim buxunum, að hann stytti upp fyrr en þá seinni part-
inn.“
Og inn fer ég og sezt við skrifborðið, skrifa ýmist með
sjálfblekungnum eða á ritvélina, en stend stundum upp og
geng um gólf. Ég hef lokið fyrsta kafla bókar, sem enn hef-
ur ekki hlotið heiti, en á að verða fyrsta bindið af fjórum
eða fimm. Sá fyrsti varð ekki nema tvær vélritaðar síður, en
sá, sem ég er nú byrjaður á, verður langur og heitir Ættir
og ættarsagnir. Þegar ég stika um gólfið, stanza ég annað
veifið og loka augunum. Þá stíga þau gjarnan út úr lukt-
um dyrum liðinnar tíðar, forfeður mínir og formæður. Þarna
sé ég Bárð Nikulásson kafa brotann á Hrafnseyrarheiði á
leið til harðsóttra og margítrekaðra kvonbæna við heimasæt-
una á Laugabóli í Arnarfirði. Hann er lágur vexti, en þétt-
ur og þreklegur, rauðskeggjaður, en ljós á hár, harður á brún
°g stálblár vilji, herkja og bjartsýni í augunum, sem horfa
á mig undan lambhúshettunni. Og þarna stendur Maren Guð-
uiundsdóttir í túnfætinum á Eyri í Skötufirði, há kona og
grönn, glóhærð og hörundsbjört, og horfir fráneyg til fjalla
í vændum þess, að þaðan komi ið unga heljarmenni, Gísli
úr Tungu í Önundarfirði, nemi hana á brott úr föðurgarði,
þeysi með liana út í húm haustkvöldsins. . .
Þegar drengurinn er farinn í skólann í vatnskápu og með
sjóhatt, kemur Unnur inn til mín og segir:
„Hvernig gengur þér, Guðmundur minn?“
„Svona, — þetta er nú að komast á skrið. . . Máttu kannski
vera að því að hlusta?“
»,Bíddu við, — ég kem.“
Hún skýzt fram fyrir, en sezt síðan og horfir á mig, og ég
tek að lesa.