Uppeldi og menntun - 01.09.1993, Side 110
MÓÐURMÁLSKENNSLA í VILLINGAHOLTSSKÓLA
sér grein fyrir hve mikla þekkingu nemendur hafa á því efni sem á að taka fyrir. Hér
er gott að nota þankahríð. Hún er fljótleg og veitir kennaranum nokkuð góðar upp-
lýsingar um þekkingu nemenda. Ef hún er lítil þarf e.t.v. að auka hana áður en
haldið er áfram. Viti þeir hins vegar mikið er nauðsynlegt að virkja vitneskju þeirra
vel fyrir lesturinn, t.d. með umræðum eða með því að láta þá skrifa um efnið, því að
ritun eflir lesskilning.
Þegar þessari vinnu er lokið undirbýr kennari lestur bókarinnar. Hann ákveður
hvað á að lesa og hverju má sleppa. Það er óþarfi að nemendur lesi alla bókina því
þeir muna hvort eð er aldrei allt. Kennarinn þarf að hjálpa þeim að setja sér skýr
markmið fyrir lesturinn vegna þess að því betur sem þeir skilja til hvers þeir eru að
lesa, þeim mun líklegra er að þeir skilji það sem þeir lesa. Þekking á uppbyggingu
og skipulagi textans getur hjálpað nemendum að átta sig á aðalatriðunum. Aður en
þeir lesa ákveðinn kafla er heiti hans athugað. Fyrirsagnir veita vísbendingar um
textann og myndir gefa ýmsar upplýsingar. Hugað er að millifyrirsögnum, ef ein-
hverjar eru, myndir skoðaðar og myndatexti lesinn. Þá er nauðsynlegt að vekja
athygli þeirra á skáletruðum og feitletruðum orðum. Fyrir lestur þarf kennari að
fara í þau orð sem hann telur að nemendur skilji ekki. Samhliða öllum þessum
athugunum geta nemendur skrifað hjá sér spurningar sem þeir vilja fá svarað við
lesturinn. Þegar þessu er lokið hafa þeir fengið nokkuð skýr markmið fyrir lestur-
inn. Þessi vinna tekur ekki ýkja langan tíma og hún er ákaflega gagnleg. Þetta geta
nemendur gert einir eða í hópum. Fljótlega læra þeir vinnubrögðin en það þarf
vissulega að kenna þeim þau.
Lestur: Þegar komið er að lestri textans má að sjálfsögðu beita nokkrum aðferð-
um. I fyrsta lagi má láta hvern nemanda lesa fyrir sig og þá hefur hann fyrir framan
sig spurningarnar, sem samdar voru út frá þeim vísbendingum sem fyrirsagnir,
myndir og fleira gáfu.
I öðru lagi vinna tveir og tveir saman. Þeir byrja á því að lesa í hljóði stuttan
kafla, 400-600 orð. Sá sem fyrr er búinn, getur lesið aftur með tilliti til mikilvægra
þátta. Eftir lestur leggja þeir textann frá sér. Annar segir munnlega frá því sem lesið
var, án þess að líta í textann. Hinn hlustar og má aðeins trufla til þess að fá nánari
skýringar. Síðan leiðréttir hann það sem var rangt og bætir við atriðum sem voru
ekki í frásögninni, en hann telur að eigi að vera þar. Loks skipta þeir um hlutverk og
lesa meira. Kosturinn við þessa aðferð er sá, að strax eftir lestur rifja nemendur upp
það sem lesið var og ræða um það. Þeir hjálpa hvor öðrum að skilja textann.
I þriðja lagi eru nemendur saman í stærri hóp. í byrjun hvers kafla skipa þeir
hópstjóra sem stjórnar störfum hópsins. Einn les upphátt fyrir hina, t.d. á milli
greinaskila, og tekur þá næsti við. Eftir hvern lestur finna þeir aðalatriðið í því sem
lesið var og semja í sameiningu eina til tvær spurningar. Þessi aðferð hefur reynst
bæði skemmtileg og árangursrík. Hún hvetur nemendur til umræðna um efnið og
þær umræður eru oft mjög gagnlegar og skemmtilegar. Kennarinn gengur á milli
hópanna og leiðbeinir eftir því sem þörf krefur.
108