Tímarit lögfræðinga - 01.12.1998, Síða 90
3.2 Greiðslustaður í lausafjárkaupum
Ef ekki hefur verið samið um annað, gildir sú regla í lausafjárkaupum, að
seljandinn á að skila af sér seldum hlut á þeim stað, þar sem hann átti heima,
þegar kaupin gerðust, sbr. 1. mgr. 9. gr. kpl. Ef seljandi rak þá atvinnu, og salan
stóð í sambandi við hana, á hann að skila hlutnum af sér á atvinnustöð sinni,
sbr. H 1985 247. Ef hluturinn var á öðrum stað á þeim tíma, sem kaupin gerð-
ust, og báðir samningsaðilar vissu eða áttu að vita um það, á seljandi að skila
hlutnum, þar sem hluturinn var þá, sbr. 2. mgr. 9. gr. Getur síðastgreind regla
t.d. haft þýðingu, þegar framleiðsla, geymsla og sala hlutar fer fram á ólíkum
stöðum.
Efnda- eða afhendingarstaður er ákveðinn út frá aðstæðum, þegar kaup
gerðust. Ef seljandinn flytur á tímabilinu frá því samningur var gerður og þar til
hlut skal afhenda, getur hann ákveðið, að afhendingarstaður flytjist einnig,
nema því aðeins að það valdi kaupanda óhæfilega miklum erfiðleikum eða
óþarfa kostnaði að sækja hlut á hinn nýja stað.
Seljandinn er því aðeins skyldur að senda söluhlut til kaupanda, að um það
hafi sérstaklega verið samið, eða leiða megi af atvikum eða viðskiptavenju að
seljandi skuli annast hlutinn.73 í 62.-65. gr. kpl. er fjallað um þýðingu ýmissa
söluskilmála, sem tíðkanlegt er að nota í sambandi við sendingu söluhlutar.
Ef seljandi á að senda seldan hlut frá einum stað til annars, til að skila honum
þar í hendur kaupanda, er litið svo á, að hann hafi skilað hlutnum, þegar hann
hefur afhent hann í hendur þess flutningsmanns, sem tekið hefur að sér að flytja
hlutinn þaðan, sem hann tekur við honum. Ef senda á hlutinn á skipi, telst
honum skilað, þegar hann er kominn á skipsfjöl, sbr. 10. gr. kpl., sbr. H 1993
185. Ef seljandi og kaupandi eiga báðir heima í sama bæ, kauptúni eða þorpi,
og seljandi á að sjá um sendingu selds hlutar til kaupanda, telst hlutnum ekki
skilað fyrr en hann er kominn í vörslur kaupanda, sbr. 11. gr. kpl.
Skylda seljanda til að senda söluhlut felur það ekki í sér, að seljandinn beri
af því áhættuna, ef flutningstæki finnst ekki, óhapp verður við sendinguna, hún
kemur of seint fram eða tjón verður á henni. Skylda hans til að senda söluhlut
felst í því að gera það, sem mögulegt er til þess að sendingin geti farið fram.
Seljandinn ber því ekki ábyrgð á óyfirstíganlegum hindrunum í þeim efnum,74
I 17. gr. kpl. segir, að hættan af því að seldur hlutur farist af tilviljun, skemmist
eða rými, sé hjá seljanda, þar til hann hefur skilað hlutnum af sér eða afhent,
sbr. 9.-11. gr.7-’
72 Sjá nánar um þýðingu greiðslustaðar Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 41; Bernhard
Gomard: Obligationsret I, bls. 117-118; Per Augdhal: bls. 53.
73 Sjá til athugunar Ufr. 1948 627.
74 Sjá Ufr. 1946 1211 (H).
75 Sjá nánar um afhendingarstað í lausafjárkaupum Bernhard Gomard: Obligationsret I, bls. 119-
120. Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 43-44.
342