Hugur - 01.01.1994, Blaðsíða 49
HUGUR 6. ÁR, 1993-1994
s. 47-62
Jóhann Páll Ámason
Samfélagssýnir og lýðræðismynstur *
i
Breytilegar og andstæðar túlkanir eru órjúfanlegur hluti af sögu
lýðræðisins. Ekki er hægt að skilja þær spurningar sem brenna á fólki
eða svörin sem um er deilt án tilvísunar til víðara samhengis stjórn-
mála og menningar. Nú um stundir er óhjákvæmilegt að hugleiðingar
um þessi efni mótist af þeim stórbrotnu atburðum sem átt hafa sér stað
á síðustu árum; umróti sem ýmist er lýst sem lokum kalda stríðsins,
kommúnismans, eða lokum hinnar styttri tuttugustu aldar (sem
samkvæmt þeirri söguskoðun hófst árið 1914), eða jafnvel sem enda-
lokum sögunnar. Eins og þessar mismunandi skoðanir bera með sér,
er engan veginn augljóst hverju lauk og hver var sigraður. Það skiptir
þó ef til vill minna máli fyrir umræðuefnið heldur en hitt, nefnilega
hver vann og hvaða stefna sigraði? A meðan það er nokkuð almennt
viðurkennt að Vesturlönd báru sigurorð af höfuðandstæðingi sínum,
þá er þráttað um hvaða þættir eða hliðar á vestrænum samfélögum
fengu helst uppreisn æru og hverjar afleiðingar sigursins verða, þegar
til lengri tíma er litið. Uppi eru að minnsta kosti þrjár tilgátur um það
efni og þótt reynslan af hruni kommúnismans sé afdráttarlaus um
sumt, þá er enn of snemmt að útiloka fleiri möguleika.
Atburðirnir í Austur-Evrópu árið 1989 voru víða túlkaðir sem sigur
lýðræðisins og afturhvarf til hefðbundnari framþróunar þess. Svo
vitnað sé í Frangois Furet, þá var afneitunin á 1917 einnig endur-
uppgötvun á 1789. Eftir því sem félagslegar og stjórnmálalegar línur
skýrðust í fyrrverandi kommúnistarikjum skyggði sigur kapítalismans
* [„Images of Society and Visions of Democracy" birtist í Rechtslheoríe, Zeitschrift
fíir Logik, Methodenlehre Kybemetik unde Soziologie des Rechts. 15 hefti, Recht,
Gerechtigkeit und der Staat. Ritstj. Mikael M. Karlsson, Ólafur Páll Jónsson og
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (Berlin: Duncker & Humblot, 1993). Þetta rit kom út í
tengslum við alþjóðlegt þing réttarheimspekinga sem haldið var í Reykjavík 1993.
Við greinina bætti Jóhann Páll síðar eftirmála. Auk höfundar las Ólafur Páll
Jónsson þýðinguna yfir og gaf góð ráð. — Þýð.]