Hugur - 01.01.1994, Blaðsíða 67
HUGUR
Að gera eða að vera
65
nýjustu bók sinni, Vilja, frelsi og mœtti, að sé einn máttugasti kafli
þeirrar góðu bókar.2
I fæstum orðum er kenningin sú að í sálarlífi manna — og erum við
ekki menn? — sé ekkert til sem heitið geti „vilji“. Viljahugtakið sé
hugarburður heimspekinga sem sé frábrugðinn sumum öðrum
heilköstum þeirra í því að hann sé öldungis óréttlætanlegur. „Röfun
(eða jónun) og rangstaða (í fótbolta) eru tæknileg hugtök sem eru
bæði réttmæt og nytsamleg. Ylefni og lífsandar voru tæknilcg hugtök
sem nú eru einskis nýt. í þessum kafla mun ég sýna fram á að vilja-
hugtakið eigi heima með hinum síðarnefndu."3 Þessari yfirlýsingu
fylgja tuttugu síður af rökum sem eru ámóta hnilmiðuð og þau eru
hugvitssamleg. Þessi rök hef ég ekki tíma til að rekja hér og nú. En
þeim sem hug hafa á að kynna sér þennan kafla má benda á að lesa
með honum einhver rit þeirra höfunda sem Ryle er að ráðast gegn, til
að mynda kaflann „Viljakenningar" í Almennri sálarfrœði eftir Ágúst
H. Bjarnason, þar sem Ágúst reynir að útlista hvað vilji sé. En hann
trúir því að „viljinn sé sérstök sálareigind" og styður þessa trú því sem
hann kallar rök: „Viljinn er yfirleitt fólginn í athygli og starfsemi sem
kemur innan að og stefnir út á við og lýsir sé í ýmiskonar andæfingum
gegn utan að komandi áhrifum. En þetta sýnir, að viljinn hel'ir alveg
sérstaka afstöðu í sálarlífi voru.“4 Vanvit af þessu tæi dugar fyllilega
til að gera árásir Ryles á viljann meira en réttlætanlegar. En þar fyrir
ekki endilega réttar. Að minnsta kosti vildi ég mega freista andófs.
Þá vita menn að ég þykist hafa eitthvað að segja um viljann. En
líka um siðferði. Hið síðarnefnda var raunar gefið til kynna í
auglýsingu þessa fundar þar sem spurt var í undirfyrirsögn þessa
erindis hvort stjórnmál skyldu hljóta að vera siðlaus. Því þótt
lesendum auglýsingarinnar hafi áreiðanlega ekki flogið siðferði í hug
þegar orðið „stjórnmál" varð fyrir þeim, þá hljóta þeir að fallast á að
siðleysi komi siðferði svolítið við. Og kannski ég hefji nú meginmál
mitt á því að reyna að gera mönnum ljósa þá hugsun sem í spurningu
minni er fólgin.
2 Gilbert Ryle, The Concept of Mind (London, 1949), s. 62-82; Anthony
Kenny, Will, Freedom and Power (Oxford, 1975), s. 13.
3 Gilbert Ryle, The Concept of Mind, s. 62.
4 Ágúst H. Bjarnason, Almenn sálarfrceði (Reykjavík, 1916), s. 302.