Hugur - 01.01.1994, Blaðsíða 119
HUGUR
Ritdómur
117
Aristótelesar og gerir henni afar góð skil. Hins vegar hefði þessi
skýringarkafli farið betur í formálanum, því hann er almennur inngangur
miklu frekar en skýringartexti við 2. kafla. Aðrir kaflar hljóta misjafna
meðferð, oftast stutta, og kaflar 10-15 næstum enga. Skýringarnar krefjast
yfirlegu. Sigurjón byrjar iðulega á því að útskýra tiltekið vandamál, en án þess
að hafa gert grein fyrir innihaldi textans með endursögn og útskýringu. Fyrir
vikið verða skýringarnar nokkuð tyrfnar og ekki viðmótsþýðar forvitnum
lesanda. Sjöundi kafli fjallar um afstöðu. Hann er langur og flókinn og vakna
margar spurningar við lestur hans. Hér hefði verið gott að fá yfirlit yfir
innihaldið og nánari skýringar á einstökum hugmyndum. Hins vegar byrjar
skýringarkaflinn svo: „í lok kaflans reynir Aristóteles að endurbæta
skilgreiningu sína á afstæðum, svo annarlegar verundir á borð við líkamshluta
geti ekki talist til þeirra. Hann virðist þó ganga of langt...“ Hér er ekki gerð
nein grein fyrir innihaldi kaflans, heldur gert ráð fyrir skilningi lesandans.
Það er mikill fengur að þessari bók og undarlegt að slíkt verk skuli ekki
hafa klæðst tslenkum búningi fyrr. Þetta var grundvallarrit í meira en tvö
þúsund ár. Verk sitt vann Sigurjón sem B.A. verkefni við Háskóla Islands.
Hann hefði mátt meitla útgáfu sína eilítið betur, bæði þýðingu og skýringar.
Umgjörð bókarinnar hefði einnig mátt vera önnur. Það er eilítið þreytandi að
nota verkið eins og það er: að fletta upp í formála, neðanmálsgreinum,
orðskýringum og skýringarköflum. Verkið er tyrfið og þessi búningur eykur á
glundroðann. Kannski hefði verið betra að semja skipulegri og ítarlegri
formála (og fella allan 2. skýringarkaflann inn í hann) og auka við neðan-
málsgreinar og orðskýringar, en sleppa alfarið skýringarköfiunum. Einnig
hefði mátt bæta frágang bókarinnar. Tilvísanakerfið er gallað, lítil samkvæmni
á milli feitletrunar og skáletrunar og skammstafanir skrýtnar, enda oftast
óþarfar. Þar veldur eitt atriði nokkurri furðu. Hvers vegna er Aristóteles
stundum nefndur „Aristóteles“ en oft og einatt „Ari“? Þetta er býsna léttúðug
stytting og kannski hnyttin. Hvernig væri Plat fyrir Platon? Þá hefði Ari
hlegið.
Svavar Hrafn Svavarsson