Hugur - 01.01.1994, Page 65
HUGUR 6. ÁR, 1993-1994
s. 63-90
Þorsteinn Gylfason
Að gera og að vera
eða
Skyldu stjórnmál hljóta að vera siðlaus?
i
Ryle og viljinn
Þetta spjall er saman tekið í minningu kennara míns Gilberts Ryle,
háskólakennara í Oxford og félaga í garði sællar Maríu Magdalenu
þar í staðnum, hinnar helgu hóru sem ég kallaði stundum svo, en hann
lézt hinn 6ta október á liðnu hausti (1976). Um hann sjálfan ætti ég
ekki að segja annað en það sem eftirmaður hans í starfi ritstjóra Mind,
prófessor David Hamlyn, segir í vetrarhefti tímaritsins sem barst inn
úr dyrunum á dögunum: „Hann var mikill heimspekingur, og mikil
manneskja.“ *
Það voru raunar tveir góðvinir mínir, samkennari minn Arnór
Hannibalsson og formaður þessa félags Ingimar Ingimarsson, sem
fyrstir höfðu orð á því við mig að mér bæri að minnast Ryles að
honum látnum. Við Arnór sagði ég strax að þau minningarorð yrðu
mér annað en auðleikin. Ég yrði að bera á móti Ryle því annað væri
ósamboðið minningu hans. En meinið væri að hann hefði, að ég bezt
fengi séð, mestan part á réttu að standa. En að vísu gæti ég freistað
þess að reynast honum öndverður á annan veg en þann að andæfa
einhverri kenningu hans.
Ryle dró aldrei dul á það að siðfræði, eins og hún hefur verið iðkuð
á 20stu öld og jafnvel langt aftur á hina 19du, væri að sinni hyggju
andleg eyðimörk. Einkum hafði hann einstaklingshyggjusiðfræði, eða
frjálshyggjusiðfræði ef menn kjósa það heitið heldur, höfunda á borð
við þá Richard Hare og Jean-Paul Sartre til marks um þetta. Einhvern
tíma fylgdi ég honum í ntiklum flýti niður á brautarstöð. Hann var á
leið til St. Andrews að halda þar fyrirlestur. í asanum hafði honum
1 D. W. Hamlyn, „Obituary: Professor Gilbert Ryle,“ í Mind, LXXXVI,
341 (janúar, 1977), s. i.