Hugur - 01.01.1994, Page 76
74
Þorsteinn Gylfason
HUGUR
píanó: ekki er ég að æfa mig fyrir tónleika; ekki bætir að heilsuna eins
og hitt að fá sér sérríglas fyrir matinn. Hvað er þetta, kynni nú einhver
að segja: þú gerir það fyrir ánœgjuna, þú hefur gaman af því. Og það
var einmitt þetta svar sem fullnægði þeim Bentham og Mill og þeim
þótti það enn ein staðfesting markhyggju sinnar. En þarna sá
Aristóteles miklu dýpra en þeir, og til marks um það er rökræða hans
um eðli ánægjunnar í Vlldu og Xdu bók Siðfrœðinnar, einhver
glæsilegasta heimspekilega rökræða sem ég þekki til. Eitt af mörgu
sem Aristóteles gerir sér ljóst — það er raunar atriði sem Platóni sást
yfir í Fílebosi, en sú samræða fjallar einmitt um ánægju — er að
ánægja er til af tvennu gerólíku tæi: hún er til í germynd ekki síður en
í þolmynd, ef svo má að orði komast. Og það er einkum germynd
ánægjunnar sem hann síðan greinir af sinni vanalegu skarpskyggni.
Ég hef sagt að við séum öll nytjastefnufólk í hversdaglegustu við-
horfum okkar, að minnsta kosti að drjúgu leyti. Því fylgir auk annars
að við höfum litla sem enga skipulega hugmynd um ánægju gerandans
til aðgreiningar frá ánægju þolandans. Einn nánasti vinur minn skilur
ekkert í því að ég skuli vera að glamra þetta á píanó, móður minni
oftar en ekki til nokkurrar skapraunar: það er svo allt annað að hlusta
á almennilegan píanóleik. Það hlýtur að vera það: hann er nánast að
saka mig um einhvers konar hugsunarvillu. En hugsunarvillan er óvart
hans — eins og Platóns í Fílebosi, Benthams og Mills: hann kann ekki
skilin á germynd og þolmynd ánægjunnar. Hann virðist ekki vita að
það getur verið gaman að vaska upp: ekki vegna tilhugsunarinnar um
að verða búinn að því, eða um hvað hitt heimilisfólkið verði fegið,
heldur vegna þess að það er gaman að djöflast í einhverju, einhverjum
andskotanum.
Nú er freistandi að tengja þessi hversdagslegu atriði úr hvers-
dagslegri nytjastefnu — atriði um gangverkið í siðferðishugmyndum
okkar sem Eyjólfur Kjalar myndi kalla — við miklu mikilfenglegri
mál. Minnumst fyrst píanóleiks á heimilum sem plötuspilarinn hefur
þaggað niður að mestu. Hugsum síðan til allrar samfélagsskipanar-
innar í iðnríkjum nútfmans, þeirrar skipanar sem öll önnur rfki alll
austur til Kína virðist dreyma um að taka upp. Sú hamingja eða
velferð sem svonefnd velferðarríki bjóða þegnum sínum er velferð
þolandans. Fólk vinnur langan dag: hina sönnu hamingju finnur það
svo í skauti fjölskyldunnar fyrir framan sjónvarpið um kvöldið — því