Morgunn - 01.12.1978, Blaðsíða 42
136
MORGUNN
einhver annar en hann. „Þegiðu,“ sagði Guðrún, „þig hefur
verið að dreyma þetta, og haltu þér saman um allt slikt.“
Sigurður sá, að ekki þýddi að tala við Guðrúnu.
Viku seinna var Sigurður látinn reka kvíaær að kveldi út
í Árdalinn. Þoka var á fjöllum og fremur dimmt yfir. Þegar
hann kom heim aftur, staðnæmdist hann við traðarhliðið, þvi
að honum sýndist margt fólk vera heima á hlaðinu og allt
sparibúið. Af feimni vildi hann ekki verða á vegi þess, er það
kæmi niður traðirnar, og faldi sig þvi skammt frá hliðinu.
Sér hann þá, að maður kemur eftir tröðunum og teymir gráan
hest, en á hestinum var þverbaka eitthvert kolsvart ferlíki, er
skagaði mikið út til beggja hliða á hestinum. Slíka sjón hafði
Sigurður aldrei fyrr séð á ævi sinni, og vissi ekki hvers kyns
fyrirbæri þetta var. Á eftir hestinum gekk svo fólkið í einum
hópi eftir tröðunum og út á götutroðninga, sem lágu í áttina
út i Árdalinn. Þegar hópurinn var kominn fram hjá, tók Sig-
urður á rás heim og beint inn í baðstofu, en þar voru þá allir
háttaðir og sofnaðir. Morguninn eftir vaknaði hann svo ekki
fyrr en allir voru komnir á fætur. Það var sunnudagur og
sýndist honum liggja mjög vel á Jónasi vinnumanni, svo hann
áræddi að segja honum frá sýn sinni kveldið áður og spyrja
hann um hverjir hefðu verið þarna á ferð. Jónas ræskti sig
og svaraði drýgindalega: „Þú munt hafa séð líkfylgd álfa-
fólks, svarta ferlíkið á hestinum getur ekki hafa verið annað
en likkista.“ — Sigurði þótti vænt um að Jónas skyldi leysa
svo greiðlega úr þessu og var viss um að hann hefði sagt sér
satt. Því var það í hvert skipti eftir þetta. er hann kom upp í
Árdalinn, að hann litaðist um, hvort hann sæi ekki álfakirkj-
una og kirkjugarðinn, en það sá hann aldrei.