Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Síða 13
EFNISHYGGJA OG HÚMANISMI STEPHÁNS G.
123
sjálf hefur enn ekki numið, og þá getum við haldið fjórða júlí hátíð
frelsisins, ekki sem gestir, heldur sem börn þess.“
Slík var lífsstefnuskrá íslenzka landnemans, er hafði kvatt Kaldbak
til að brjóta land til akurs í Vesturheimi.
Þrisvar braut þessi maður land áður hann fengi lífsstaðfestu, fyrst
í Bandaríkjunum, síðar í Kanada. Hann varð frumbýlingur í auðn-
um óbyggðarinnar, þúsundþjalasmiður, er varð að vera lagtækur á
sundurleitustu störf þessarar landnámsaldar, er menn allra kynþátta
voru að skapa Vesturheim. Hann ryður mörkina, brennir tígulstein,
leggur járnbrautir, mælir lönd öræfanna. Lengst af lifir hann á mörk-
um byggðar og auðnar, tekur þátt í öllum sviptingum siðmenningar og
óbeizlaðrar náttúru Vesturheims. Hann var einn í hópi hinna mörgu
milljóna frumbýlinga, sem færðu hina ósnortnu jörð undir plóg menn-
ingarinnar, en hann varð í hópi hinna fáu, sem fékk túlkað þessa frum-
býlingsöld í ljóði, tjáð þetta gróskumikla líf ónuminnar jarðar, undir
reginöflum lofts og himins, skynjað hlut mannsins í þessum stórfenglega
hildarleik. Stephán G. Stephánsson lifði sjálfur sögu mannlífsins, háði
sjálfur baráttu þess við náttúruöflin í óbyggðum hinnar nýju álfu. Hér
skildist honum, að maðurinn er hið skapandi afl sögu sinnar, höfundur
síns eigin mannheims. Þessi staðreynd frumbýlingsáranna markaði alla
lífsskoðun Stepháns G. Stephánssonar til æviloka. 011 list hans er helguð
þeirri baráttu, sem háð er með manninum og frumöflum tilverunnar,
þar sem maðurinn er hvorttveggja í senn: þjónn þeirra og herra, en
hlutverk hans að verða sjálfur mennskari um leið og hann temur nátt-
úruöflin til hlýðni við hinn virka vilja sinn:
Að vita af eigin yfirburðum
er eini sanni styrkur mannsins.
Að hafa grætt upp gras úr urðum
og gaddinn þýtt úr kali landsins.
Frumbýlingsár Stepháns, landnámsár Vesturheims, voru miklir um-
brotatímar í lífsskoðun mannanna. Risaskref tækni og náttúruvísinda
sviptu stoðunum undan hinni trúrænu heimsskoðun fortíðarinnar. Þró-
unarkenning Darwíns veitti mönnunum nýja útsýn yfir framvindu til-
verunnar og samhengi allt. Hin unga kynslóð, sem lifði í morgunsári
hinna nýju lífssanninda, var frá sér numin, en enginn fagnaði þessari