Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Blaðsíða 17
EFNISHYGGJA OG HÚMANISMI STEPHÁNS G.
127
í mannviti, sem þar er um að þreifast,
að þekkja sig, sinn veg og kringumstæður.
Sannleikurinn er ekki nein véfrétt •—- Stephán sviptir af honum öllum
goðrænum kynjahjúp. Sannleikurinn er fólginn í lífsskilyrðum mann-
anna og er því „viðhald okkar veru“. Vaxtarlögmál lífsins, sem les sig
jram þó vegurimi sé hallur, gilda einnig um okkur mennina, þroski
þeirra er í sama mund viðgangur sannleikans:
Þau reynsluspor sem menning manna hækka
og miða fram, er sannleikurinn eini.
Sannleikurinn er hinn hlutlægi veruleiki, algildur og alsjálfstæður. í
þessu alríki veruleikans eiga mennirnir óðul sín, svo sem allar aðrar líf-
verur. Því lengra sem mönnunum miðar á þroskabraut vits og reynslu,
vex einnig þekking þeirra og vald á sannleikanum, tilverunni. Að vísu
verða þeir alla stund aðeins þegnar í þessu alríki tilverunnar, en þegn-
réttur þeirra vex að sama skapi og vald þeirra og þekking. Því mætti
orða þetta svo, að mennirnir vaxi í sannleika — þótt vegurinn sé stund-
um hallur!
Þessi öfgalausa þekkingarhyggja, er Stephán G. Stephánsson aðhyllt-
ist, forðaði honum frá þeirri hálfblindu, fálmandi og marklausu „sann-
leiksleit“, sem venjulega er ekki annað en skálkaskjól í ráðlausu flani
manna eftir glæringum blekkinga og villuljósa. Stephán leitaði aldrei
frétta í kerlingabókum tilverunnar þótt vísindin gætu ekki greitt úr
öllum spurningum hans. Sjálfur hafði hann um fimm tugi sumra orðið
að bíða þess, að sáinn akur þroskaðist, og hann vissi, að mennirnir
mundu halda áfram að spyrja í þaula og leysa án afláts úr öllum þeim
ráðgátum, er vaktar mundu verða á tilveruferli þeirra.
*
Vestur í óbyggðum Kanada gengur íslenzkur bóndi að landnámi.
Hann heyir hið langa stríð einyrkjans við harðhenta náttúru, sem er
naum á allar gjafir nema þær séu sóttar með valdi í skaut hennar.
Menntun hans er heimaunnin — námsbækurnar Edda Snorra og postilla
Vídalíns — en á máli beggja þessara orðsnillinga yrkir hann sig upp
úr kristindómnum, afsalar sér allri huggun hans og gengur heiðinni