Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Side 22
132
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
en flestir aðrir, þá varð hann þó oft að fara einförum, en götuslóði
hans, af einum troðinn, varð síðar öðrum þjóðbraut. Stephán mátti
sanna þau orð, er hann orti í hinum fögru eftirmælum um Sigurbjörn
Stefánsson í Winnipeg: Það stríð er þungt, sem heyir evnn við múginn.
Hinir sterku einstaklingar, sporgöngumenn mannkynsins, urðu Steph-
áni oft að yrkisefni, ekki sízt á frumbýlingsárum hans. En þegar byggð-
in óx og aldur færðist yfir skáldið var sem hann tengdist mannheimum
æ fastari böndum. Uppreisnir kúgaðra stétta og þjóða á öndverðri
þessari öld örvuðu skilning hans á sögulegum afrekum lýðsins, hins
skipulagða múgs. Hann fagnaði þessari nafnlausu hetju nútímans og
gaf henni nafn:
Yfir hark og hræjafallið
heyra muntu lúðurkallið,
halda aftur heim
utan úr útlegðinni
týgjaður viti og von:
Vöggur, fóstri, Kotungsson!
Fimm árum fyrir dauða sinn yrkir Stephán Martíus, sólarljóð hinna
vinnandi stétta 20. aldar:
Fram þú lýður!
landavíður
liggur í hlekkjum heimur þinn,
harðfrosinn
á hönd og fæti, en hjartaþíður. —
Leys hann meðan lífið bíður!
*
Stephán G. Stephánsson dreymdi um það alla ævi að gera okkur til-
veruna bærilega „ með viti og góðum vilja“. Vit — vilji — von — það
var hin heilaga þrenning í mannkynsguðspjalli Stepháns G. Stepháns-
sonar. Þetta þrennt taldi hann vera hið sérlega framlag mannanna, hið
mennska náttúruafl, er gæti hlutazt til um blinda framvindu efnis-
heimsins. Þótt oft syrti að á lífsbrautum Stepháns G. Stephánssonar, þá
missti hann aldrei þessa þrjá kjörgripi, sem eru sögulegt aðalsmark
mannanna og einkaeign í alríki tilverunnar.