Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Blaðsíða 105
PAUL ÉLUARD
215
víða jafn unaðslegur og þó sterkur sem í Ailleurs lci Partout eða síðasta
ljóðinu sem hann gekk frá til birtingar, Le Cháteau des pauvres er birt-
ist í tímaritinu Cahiers du Sud nokkrum vikum eftir lát hans.
Paul Eluard er nú af öllum, jafnt andstæðingum sem samherjum,
álitinn eitt fremsta skáld Frakklands. Og þeir munu ekki allfáir sem
telja hann mesta nútímaskáld á franska tungu. Hið opinbera mat á
skáldi skiptir reyndar ekki miklu máli. Hitt skiptir meiru hvers virði
ljóð eins skálds eru fyrir hvern og einn. Af öllu því sem ég hef séð skrif-
að „til minningar um Éluard“ af vinum og aðdáendum, frægum mönnum
og lítt kunnum, varð mér hugstæðust lítil grein eftir skáldið René
Ménard, þar sem hann minnist þess hvernig hann kynntist skáldskap
Éluards, í þýzkum fangabúðum árið 1943. Hann segir frá því að „þegar
hvorki Apollinaire né Valéry voru okkur lengur hjálp,“ kom nýr fangi,
ungur maður í fangabúðirnar. Meðal dýrgripa þeirra sem hann geymdi í
minni sér voru ljóð Éluards. „Éluard gaf okkur aftur „hin undursam-
legu orð“, „ríki mannsins“.“ Hann segir frá hvernig skáldskapur
Éluards gaf þeim nýja sjón, aðgang að alheimi sem þeir voru sviptir,
hvernig hann gaf hinum fátæku blindu ástum fanganna aftur sinn fagra
lit. „Þannig hjálpaði Éluard okkur,“ segir Ménard að lokum, „til að
bjarga öllu sem okkur reið mest á: voninni, bræðralagi manna, vin-
áttunni, ástinni.“
Þannig hefur Éluard gefið mörgum sjón, gefið mörgum líf. Það hef-
ur verið réttilega sagt um skáldskap hans að hann sé móralskur; þar er
þó ekki hinn smásmugulegi mórall hræsninnar heldur hinn æðsti mórall
um virðuleik og tign mannsins.
Með skáldskap sínum og lífi hefur hann gefið okkur dæmi til að
fylgja.
Apríl 1953.
Aths. Um æviatriði Éluards hefur einkum verið stuðzt við ritgerðir þeirra Louis
Parrots og Jean Marcenacs: PAUL ÉLUARD (Poétes d’aujourd’hui, 1), Nouvelle
édition augmentée, jan. 1953, útg. Pierre Seghers. Við þýðingar á tilvitnunum hef
ég ekki leitast við annað en að fylgja orðunum sem nákvæmast.