Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Síða 133
ÞJÓÐIR OG TUNGUMÁL
243
Við getum tekið arabísku sem fulltrúa þessara tungna og athugað
byggingu hennar lítils háttar.
Ef við ætlum að læra arabísku, er það strax kostur, að málfræði-
kynin eru ekki nema tvö, ekkert hvorugkyn, en nafnorðin skiptast milli
þeirra eftir eðliskyni hlutanna, er þau tákna. Hins vegar eru tölur þrjár,
eintala, tvítala og fleirtala á mörgum nafnorðum, einkum þeim er tákna
samstæður, sem eðlis síns vegna heyra saman, svo að „hönd“ er id
(et.), „tvær hendur“ iden (tvítöluendingin er -en). Persónufn. 2. p.
beygist eftir kynjum. T. d. er „þú“ = ka, þegar talað er við karlmann,
ft. kum, en í kvk. er „þú“ ki og í ft. kunna. Greinirinn er aðeins ákveð-
inn, eins og í íslenzku, og getur birzt í ýmsum myndum, en uppruna-
myndin er il, sem við þekkjum úr ýmsum nöfnum , svo sem al-kóhól,
sem er af arabískum uppruna (al-kochl) og táknar eiginlega fíngert
duft, uppleyst í vatni. Greinirinn samlagast oft eftirfarandi hljóði,
breytist t. d. í ir á undan r. Lýsingarorð eru sett á eftir orðinu, sem
þau fylgja. Þau taka fleirtöluendingu, mismunandi eftir því, hvort átt
er við lifandi eða dauða hluti. Og í arabísku eru engin eiginleg atviks-
orð, heldur eru orðasambönd, til dæmis forsetning og nafnorð, notuð
í þeirra stað. Sagnorð beygjast eftir kynjum, og beygingar þeirra koma
okkur sennilega nokkuð ókennilega fyrir sjónir að öðru leyti.
Eitt helzta einkenni þessara tungna er, að hvert orð er að stofni til
gert af þrem samhljóðum, sem verða að vísu að hafa sérhljóð á milli
sín í framburði, en sérhljóðin eru síðar til komin og breytileg innan
sama orðs. Fleirtala nafnorða og lýsingarhættir sagna myndast til dæm-
is oft við það, að skipt er um sérhljóð orðsins, en samhljóðin halda
sér. — Próf. dr. Alexander Jóhannesson hefur í sambandi við rann-
sóknir sínar á tungu frummannsins komið fram með þá tilgátu, að
upprunalega séu samhljóðin í semízkum orðstofnum aðeins tvö, en hið
þriðja sé síðar til komið.
Nútímatungur Semíta eru ritaðar tveim stafrófum aðallega, hinu ara-
bíska og hinu hebreska. Þau eiga það sameiginlegt, að byrjað er þar
á bókinni, sem við myndum kalla aftast, byrjað á línunni efst í hægra
horni blaðsíðunnar, en ekki í vinstra horni að ofan, eins og við gerum.
Svo eru línurnar lesnar frá hægri til vinstri. — Það er annars tilviljun,
að okkar stafróf er lesið frá vinstri til hægri, og margar norrænar rúna-
ristur verður að lesa frá hægri til vinstri, ef eitthvert vit á að fást í þær.