Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Blaðsíða 63
Georg Lukács og hnignun raunsœisins
flóttinn frá samfélagsveruleikanum, en líka meðvituð og ómeðvituð viðleitni
til að kalla fram og endurspegla innsta eðli mannlegra afstæðna. Á margan
hátt má líta á innsæisbókmenntir sem andsvar — og stundum nokkuð ofstæk-
isfullt andsvar — við natúralismanum. Það er ekki aðeins að nákvæmar um-
hverfislýsingar séu látnar lönd og leið, heldur líka stundum umhverfi yfirleitt.
Höfundurinn verður ekki „vísindalegur“ athugandi hlutveruleikans, heldur
glímir hann fyrst og fremst við hugveruleikann og þann efnivið sem hann
dregur sér úr honum. Hann stendur ekki lengur frammi fyrir heimi sem á-
kvarðast af áþreifanlegu og að meira eða minna leyti lögmálsbundnu ástandi,
heldur flýgur hann nú einsog fuglinn frjáls um geima sem eiga sér lítil tak-
mörk. Efniviður hans verður þó ekki meiri eða ríkulegri en natúralískra og
raunsærra höfunda, en hann getur meðhöndlað hann á miklu frjálsari og
fj ölbreyttari hátt. T. d. þurfa persónur hans ekki að draga dám af fólki eins-
og við þekkjum það í samfélagsveruleikanum, heldur getur hann afskræmt
það og ummyndað einsog hann lystir. Hér opnast honum möguleikar til að
leika sér í tilraunum jafnt með form sem innihald.
Innsæisskáldskapur getur samt falið í sér ýmsa þætli raunsæis og jafnvel
natúralisma; hann er sjaldnast hreinn og tær. En í grófum dráttum má segja
að hann stefni í gagnstæða eða ólíka átt. Á meðan raunsæið leitar mannsins
í mannheimum, í hlutlægum veruleika samfélagsins, þá leitar innsæið að hon-
um í goðheimum og dulheimum, í dýpstu fylgsnum hugarins. Veruleikinn
verður yfirskilvitlegur. En goðsagnir þessa skáldskapar eiga lítið skylt við
goðsagnir fornra trúarbragða; þær bera meiri keim af sálvísindum seinni
tíma en Seifi og Óðni. En flótti hans frá samfélagsveruleikanum er jafnframt
leit að haldreipi, hann er leit að því upphaflega og hreina sem höfundurinn
finnur ekki lengur í kringum sig. Þessi leit getur oft og tíðum orðið æði ör-
væntingarfull, ekki sízt hjá alvarlegum höfundum sem neita að hlekkja sjálfa
sig og finna haldreipið strax í fyrstu göngum.
Innsæishöfundur getur vissulega skrifað heillega sögu, ef með því er átt að
hún hafi upphaf, miðju og endi, og með heillegum persónum, ef með því er
átt að þær klofni ekki í frumparta sína eða breytist í ótal persónur aðrar og
jafnvel dýr og dauða hluti. En skáldskapur sem byggir ekki á samfélagsveru-
leikanum verður aldrei að þeirri heild sem Lukács á við, hann vantar þann
grundvöll sem er nauðsynlegur til að hann geti orðið annað en óaðskiljan-
legur hluti af huglægni höfundar síns, og líka þann grundvöll sem er nauð-
synlegur til að lesandinn geti sannreynt innihald hans með því að heimfæra
það á eigin tilveru. Og þaðanafsíður getur hann orðið að týpískri heild.
253