Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Blaðsíða 38
Tímarit Máls og menningar
leg. Um leið hefur þessi sundurgreining og afmörkun vinnutímans, ásamt nið-
urbútun heildarverksins, sundrandi áhrif á mannshugann og getu hans til að
skynja og skilja hlutveruleikann sem heild.
En það er ekki aðeins við vöruframleiðslu sem maðurinn verður á vegi
gernýtingarinnar og afleiðinga hennar. Opinberar stofnanir draga dám af
framleiðslukerfi kapítalismans. Starfshættir í skrifstofubákninu eru keimlíkir
starfsháttum í verksmiðju í einkaeign. Skrifstofustúlka sem vélritar það sem
hún skilur ekki og sér engan tilgang með er á sama báti og maðurinn með
skrúfuna. Verkaskiptingin er jafntakmarkalaus og sérhæfingin einnig. Þrátt
fyrir þessa samsvörun stendur skriffinnurinn, einkum sá sem hefur völd og
áhrif, enn verr að vígi en t. d. smiðurinn í húsgagnaverksmiðjunni. Þó hann
selji vinnuafl sitt á sama hátt og smiðurinn, þá finnst honum ekki að hann sé
arðrændur, einsog smiðurinn er rændur gildisaukanum, að hagsmunir hans
og stoínunarinnar séu ólíkir og jafnvel andstæðir. Hann hefur þvert á móti
tilhneigingu til að bera hag stofnunarinnar fyrir brjósti, þó svo hann hafi
enga innsýn í heildarstarfsemi hennar. Hann hefur „ábyrgðartilfinningu“ og
„starfsheiður“ sem smiðurinn fær aldrei; hann er nákvæmur og samvizku-
samur embættismaður. Hann selur ekki bara vinnuafl sitt sem vöru, heldur
líka „sálu“ sína. Hann er kerfinu undirgefinn jafnt á nótt sem degi. Og kerfið
er í huga hans fyrst og fremst kerfi afstæðna milli hluta. Áhrif hlutgerving-
arinnar á vitund mannsins minnka þessvegna ekki eftir því sem ofar kemur í
stöðustiga þjóðfélagsins.
Einn höfuðþáttur hlutgervingarinnar er enn ótalinn. Vöruformið gerir ekki
aðeins það óhlutkennda hlutkennt í hugum manna heldur leynir það líka
raunverulegu eðli (Charakter) hlutanna. í augum útgerðarmannsins er bát-
urinn fyrst og fremst tæki til að hagnast á. En báturinn er sem hlutur engan-
veginn eðlisbundinn hagnaðinum. Hann glatar ekki eiginleikum sínum, t. d.
þeim að geta flotið, þó hann hætti að skila hagnaði af því sjómennirnir hafa
farið í verkfall. í augum sjómannsins er báturinn fyrst og fremst vinnustaður
þar sem hann selur vinnuafl sitt. En báturinn er enganveginn eðlisbundinn
sölu vinnuaflsins. Hann glatar ekki eiginleikum sínum þó sjómaðurinn flytj-
ist í land. Og svo tekið sé klassískt dæmi: Hvert er eðli peninganna? Hvert
er t. d. eðli fjár á vöxtum? Er það raunverulegt eðli þess sjálfs að gefa af sér
meira fé? Vaxa peningar á peningum eins og krækiber á lyngi?
Því útbreiddara sem vöruformið verður, því meir afskræmist eðli allra
hluta. Maðurinn fjarlægist ekki bara sjálfan sig þegar hann gegnsýrist af
sinni eigin hlutgerðu veröld, verður hlutur meðal hluta, heldur fjarlægist
228