Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Blaðsíða 160
Tímarit Máls og menningar
I 23. tbl. 3. árg. Skuldar, sem út kom 11. október 1879, var auglýst, aS
kvæðið „Víg Snorra Sturlusonar“ eftir Matthías Jochumsson væri komið út
á Eskifirði. Þetta var önnur prentun kvæðisins, en fyrst hafði það verið
prentað í Baldri 1.—2. tbl. 3. árg., en Jón Olafsson var þá ritstjóri blaðsins.
Jón Ólafsson ritaði formála að 2. útg. og segir þar, að hann telji kvæði þetta
betra en svo, að það megi falla í gleymsku á síðum Baldurs. Segir og, að er
hann fékk að prenta kvæðið í Baldri, hafi hann engin ritlaun getað goldið og
vonist hann til að geta með þessu goldið þá skuld sína við sr. Matthías. Þessi
útgáfa er 24 bls. að stærð.
í 25. tbl. 3. árg. Skuldar er tilkynnt, að sagan „Kátr Piltr“ eftir Bjöm-
stjerne Björnson sé komin út í íslenzkri þýðingu Jóns Ölafssonar, en áður
hafði hluti bókarinnar birzt í „Dægrastytting“, svo sem að framan er greint.
Jón Ólafsson ritar formála, þar sem hann biður lesendur velvirðingar á því,
að þýðingin kunni að vera flaustursleg á köflum, en hann hafi oft þurft að
skrifa hana í kappi við prentsmiðjuna.
Þannig lauk bókaútgáfu ársins 1879, og verður ekki annað sagt en að vel
hafi verið haldið á spöðunum í Skuldarprentsmiðju.
A árinu 1880 voru auk markaskrárinnar, sem þegar er getið, prentaðar tvær
bækur í Skuldarprentsmiöju. Hin fyrri var „íslenzku síldarveiða-lögin“. Var
það rit tekiö saman af Jóni Ólafssyni og prentað á íslenzku með norskri þýð-
ingu, þannig að íslenzki og norski textinn stóðust á í opnu. Bók þessi hefur
vafalítið verið tekin saman og gefin út sökum þess misskilnings, sem oft varð
vegna vanþekkingar norskra síldveiðimanna á íslenzkum lögum.
Síðasta bókin, sem prentuö var á Eskifirði, mun hafa komið út síðsumars
1880. Var það skáldsagan „Hvorn eiðinn á ég að rjúfa“ eftir Einar Hjörleifs-
son.
Þann 16. október 1880 kom út 26. tbl. 4. árg. Skuldar, og var það hið síð-
asta, sem prentað var í Skuldarprentsmiðju á Eskifirði. Þann dag lauk stuttri
sögu en ekki ómerkri, — fyrsta þætti í prentlistarsögu Austurlands.
Þegar Jón Ólafsson hélt frá Eskifirði um veturnætur 1880, skildi hann
prentsmiðjuna eftir, og lá hún þar í reiöileysi, unz nokkrir áhugamenn um
útgáfustarfsemi og prentverk tóku sig saman árið 1883 og keyptu prentsmiðj-
una fyrir 1400 krónur. Þessir nýju eigendur fluttu prentsmiðjuna að Vest-
dalseyri við Seyðisfjörð. í ársbyrjun 1884 hófu þeir að gefa út blað, sem
nefndist Austri. Þá hófst annar þáttur austfirzkrar prentlistarsögu.
Tilvitnun í kafla II. 7
1 Sjá Hróðmar Sigurðsson: íslenzk stafrófskver. Skírnir 1957 bls. 60.
350